- Advertisement -

Samsæri eru mjög algeng í stjórnkerfinu

Það er rosalegt að forystumenn í stjórnmálaflokkum geti haft áhrif á það hverjir veljast í dómarastöður á Íslandi.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

Ótrúlegt hvað fólk er hrætt við orðið samsæri. Það forðast hugtakið eins og pestina, reynir að sannfæra sjálft sig um að allt slíkt eigi ekki við rök að styðjast. Þola ekki ef einhver bendir á að um samsæri sé að ræða. Þvílík blinda og afneitun. Þetta er eins og skella steini yfir höfuðið. Ólöglegt samráð er til dæmis samsæri gegn almenningi. Samráð um verð er þekkt íþrótt á Íslandi. Fræg eru samráð tryggingafélaga, olíufélaga, samráð Byko og Húsasmiðjunnar, samráð í útboðum á vegum hins opinbera, sem eru tilboðssvik, og svo mætti endalaust bæta við þennan lista.

Öll þessi samráð eru kolólögleg og til þess ætluð að forðast samkeppni og halda verðum uppi.

Samsæri eru mjög algeng í stjórnkerfinu. Til dæmis er gert ráð fyrir því að í opinberar stöður veljist sá hæfasti. Þetta er þverbrotið og samráð mjög áberandi milli stjórnmálaflokka. Ef minn maður fær þessa stöðu, þá færð þú eitthvað annað í staðinn. Fræg eru dæmin um sendiherrastöður. Það er allt morandi í svona ráðningum í íslenska stjórnkerfinu. Þetta er alls staðar. Líka í æðstu embættum. Hjá dómsvaldinu og framkvæmdavaldinu. Mannaráðningar eru gott dæmi um það hvernig lýðræðið er fótum troðið í íslensku samfélagi. Slík samsæri bitna auðvitað á gæðum stjórnkerfisins, þegar hagsmunum almennings er fórnað á altari sérhagsmuna einstakra forystumanna eða plotti á milli þeirra.

Það er rosalegt að forystumenn í stjórnmálaflokkum geti haft áhrif á það hverjir veljast í dómarastöður á Íslandi. Frægt dæmi er þegar Davíð Oddsson og co fengu því ráðið að Ólafur Börkur Þorvaldsson (frændi Davíðs) var ráðinn hæstaréttardómari. Þar var annað fólk talið hæfara eða Eiríkur Tómasson lagaprófessor, Ragnar Hall og Hjördís Hákonardóttir. Geir H. Haarde fyrrverandi ráðherra og sjálfstæðismaður, skipaði á sínum tíma Jón Steinar Gunnlaugsson (flokksgæðingur Sjálfstæðisflokksins) dómara við Hæstarétt, þrátt fyrir að aðrir hafi verið taldir hæfari. Þá var það mjög frægt þegar Árni M. Mathiesen sjálfstæðismaður og ráðherra skipaði Þorstein, son Davíðs Oddssonar, í embætti dómara við Héraðsdóm Vesturlands. Vandræðagangurinn í kringum ráðningar í Landsrétt, þar sem Sigríður Andersen þverbraut æðstu lög landsins, er auðvitað hrópandi dæmi. Það er því ekki hægt að treyst því að dómsvaldið sé hlutlaust. Sem er grafalvarlegt mál.

Auðvitað er þetta samsæri. Samsæri gegn almenningi. Að sjálfsögðu vill fólk að sá hæfasti sér ráðinn til að kerfi samfélagsins virki sem best. Það eru líka lög um að við ráðningar skuli jafnrétti kynjanna haft að viðmiði. Það er líka þverbrotið. Samsærin þar eru líka áberandi, þar sem flokkar eða stofnanir ganga fram hjá hæfum konum til að koma sínum karlmanni að.

Það er alveg óþarfi að vera hræddur við orðið samsæri. Þvert á móti getur það einmitt endurspeglað það hvernig kaupin gerast raunverulega á Íslandi. Afhjúpað lögbrot, ólögleg samráð, hagsmunabandalög og siðleysi sem bitnar á almenningi.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: