- Advertisement -

Að hylma yfir með glæpum – fyrir borgun

Enda stjórnar stórútgerðin öllu leynt og ljóst á Íslandi og getur gefið stjórnkerfinu fyrirmæli.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

Mikið er það aumt hlutskipti að þiggja fúlgur fjár fyrir að hylma yfir með glæpum. Stórfelldum glæpum, spillingu og siðferðisgildum á svo lágu plani að ekki er hægt að líkja það við neitt nema mafíurekstur. Björgólfur Jóhannsson hefur tekið að sér þetta hlutskipti. Það er varla hægt að komast neðar í virðingarstiganum. Varðhundur íslenskra mafíuósa sem stunda mútur, arðrán og gripdeildir á auðæfum fátækra þjóða. Björgólfur fullyrðir að Samherjamálið fái skjótan endi eins og Seðlabankamálið sem fuðraði upp. Björgólfur er auðvitað með mjög góð tengsl inn í stjórnkerfið og finnst hann geta fullyrt svona. Telur sig sennilega hafa eitthvað fyrir sér í þessu vegna þess að hann er í beinu sambandi við stjórnmálaelítuna, Kristján Þór sjávarútvegsráðherra, Bjarna Ben og aðra toppa í stjórnkerfinu. Þess vegna getur Björgúlfur verið svona kokhraustur. Enda stjórnar stórútgerðin öllu leynt og ljóst á Íslandi og getur gefið stjórnkerfinu fyrirmæli.

Þeir drukku og höfðu hátt og litu augljóslega mjög stórt á sig.

Við skulum ekki gera lítið úr tengslum auðmanna við stjórnkerfið; Alþingi, ríkisstjórnir, dómsvaldið og forystumenn opinberra fyrirtækja. Þessir menn eru í sömu stjórnum fyrirtækja og stofnana, eru í sömu klúbbunum, tilheyra sömu ættunum, hafa sömu áhugamál og fara saman út að borða.

Það er ekkert langt síðan að ég sat við hliðina á slíkum hópi á veitingahúsi. Meðal þeirra sem þar sátu var Björgólfur Jóhannsson, Hreggviður Jónsson forstjóri og fjárfestir og einn af ríkustu mönnum á Íslandi (hagnaðist um 200 milljónir í fyrra), Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar og Ólafur Börkur Þorvaldsson sem skipaður var sem dómari í Hæstarétt vegna tengsla við Davíð Oddsson. Það fór mjög vel á með þessum mönnum. Þeir drukku og höfðu hátt og litu augljóslega mjög stórt á sig.

Svona er þetta. Valdablokk ríka fólksins í stórfyrirtækjunum, forstjórastólunum og fínu embættum ríkisins, sem tengist saman hagsmunabandalagi um að sölsa undir sig sem stærstum bita af þjóðarkökunni. Og tekst það vel.
Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: