- Advertisement -

Hangir Þorgerður Katrín á húninum?

Eftir að Katrín klæddist hinum harða stálhnefa Sjálfstæðisflokksins, er hún önnur en hún var.

Ráðafólkið Bjarni, Katrín og Sigurður Ingi.
Það er aftur verra með Katrínu. Hún, sem var vonarstjarna svo margra, hefur skipt um lið.

Hin íslensku „fyrirmenni“ voru heilt yfir kurteis og fín tauinu í Kryddsíldinni. Vildu greinilega ekki særa hvert annað. Voru frekar sem vinir en andstæðingar. Nema Inga Sæland. Meira um það á eftir.

Bjarni og Katrín fóru létt með að verjast hinum aumum púðurskotum. Sigurður Ingi hefur örvast. Talar hærra og hraðar en áður. Virðist meta stöðu sína ekki eins auma og hún í raun er. Gott hjá honum. Eða hvað? Flokkurinn hans rennur enn niður brekkuna. Kannski nær hann heilla einhverja kjósendur. Sennilega er það of seint.

Þau eru á biðstofu stjórnarráðsins. Tilbúin þegar kallið kemur.

Eftir að hafa hugsað um Bjarna herðist ég í þeirri skoðun að hann sé ekki eiginlegur stjórnmálamaður. Að hann brenni ekki fyrir eigin hugsjónir. Að hann vilji bæta og efla samfélagið. Að hann hugsi í pólitískum lausnum. Erindi Bjarna virðist aðeins eitt. Það er að gæta hagsmuna eigin bakhjarla. Og það gerir hann. Já, hann gerir það.

Það er aftur verra með Katrínu. Hún, sem var vonarstjarna svo margra, hefur skipt um lið. Fyrir kosningar boðaði hún að fátækasta fólkið, fólkið sem er fast í aumri fátækt, fólkið sem á enga von um að taka þátt í samfélagi okkar hinna, myndi fá réttlæti. Eftir að Katrín klæddist hinum harða stálhnefa Sjálfstæðisflokksins, er hún önnur en hún var. Annað er, ég heyri bara ekkert hvað hún segir, þegar hún hreykir sér af eigin árangri. Sviknu loforðin um réttlætið yfirtekur allt. Allt verður að óbærilegu suði. Í stað þess að standa með því fólki, sem aumast hefur það, hefur hún skipað sér í raðir hagsmunagæslu Bjarna Ben. Aumara verður það ekki bara.

Logi er næstur. Veit ekki með Loga. Hann er ögn öðruvísi. Í honum er listamaður og hann á til með að nota öðruvísi orðfæri en hin „fyrirmennin“ flest. Hann virkar sem dæmigerður hægri krati. Er langri leið frá þeim kjósendum sem leita að forystumanni fyrir jafnaðarflokk hvað þá það fólk sem veikast stendur. Í umræðu eins og í gær gat hann eiginlega ekki neitt. Kom ekki með eina stungu. Ekki eina. Ekki neitt. Framlag hans gleymist hratt. Samfylkingin er flokkur mennta- menningarfólks. Eflaust er þörf fyrir þess konar flokk. Hver veit. Hef þá trú að Logi og hans flokkur myndu stökkva í fangið á Bjarni, ef kallið kemur.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er eins og hann er. Virðist telja sig frekar vera spámann en stjórnmálamann. Vill vísa okkur veginn. Hann virðist ætla að gjörsigra Framsókn í hinni löngu skák þeirra. Sigmundur Davíð og Miðflokkurinn. Já, þaðan kemur harðasta atlagan að Sjálfstæðisflokknum. Þaðan er talað beint til þess fólks sem er ekki íhald, frekar sem afturhald. Ekki er einn einast vafi á að Sigmundur Davíð myndi ganga til liðs við Bjarna hagsmunagæslumann hvenær sem er. Miðflokkurinn mun kosta. Kosta mikið. Eða er forsætisráðuneytið mikið? Ekki til þessa.

Þorgerður Katrín virðist hanga á húni ríkisstjórnarherbergisins. Virðist langa óstjórnlega mikið inn. Ef hún missir út sér ögn af gagnrýni á ríkisstjórnina fullyrðir alltaf í sömu setningu að ríkisstjónin sé ágæt. Hafi gert svo margt rétt og gott. Vill sýnilega ekki brenna neinar brýr að baki sér. Vill halda öllum leiðum opnum. Hver vegur að heiman er vegurinn heim ómar þegar Þorgerður Katrín sparar ekki blíðuhótin við ríkisstjórnina. Kannski er hún á leið til Valhallar. Ekki þarf að efast um, ekki eitt einasta andartak, að Þorgerður Katrín og hennar flokkur, myndu samdægurs ganga til liðs við Bjarna Ben.

Þær hafa sérstöðu. Inga gleymdi ekki eigin póltík.

Halldóra Mogensen getur betur en hún gerði í Kryddsíldinni. Píratar eru öðruvísi. Þingmennirnir eru óhræddir. Halldóra virðist hafa ákveðið að falla inn í hóp „fyrirmannanna“. Og tókst það ágætum. Sérstaða Pírata er mikil. Þeim fer ekki vel að baða sig í ljósi forréttindianna. Eitt er nokkuð víst með Pírata. Þeir eru allra þingflokka ólíklegastir til að vinna með Bjarna Ben og hans hjörð. Helsta ástæða þess er sú að Valhellingar hreinlega hata Pírata. Halldóra Mogensen kaus friðinn frekar en átökin.

Að endingu er það Inga Sæland. Stjórnendur Kryddsíldar leyndu í engu að þeir eru ekki par hrifnir af pólitík Ingu Sæland. Byrjuðu á að núa henni um nasir þar sem hún hafði einhvern tíma áður lýst yfir áhuga á að stofna kór þingmanna. Ekki vel heppnað hjá Ingu á sínum tíma. Hún var í Kryddsíldinni neydd til að verjast gömlum brandara. Inga náði sér á strik. Inga er ekki fædd í hóp „fyrirmenna“. Hún hikar ekki. Var hún sjálf. Benti á óþolandi misskiptingu. Það var hvíld frá innihaldslausu orðaflæði hinna. Inga er trú sinni baráttu. Alla daga. Því bar hún af í Kryddsíldinni.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: