- Advertisement -

Ríkisstjórnin hefur stórlækkað veiðigjöldin

Það eru gríðarlegir hagsmunir fyrir þjóðina að við náum að breyta þessu.


Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar:  

Umræðan um veiðileyfagjöld verður stundum ótrúlega vitlaus. Og alltaf birtist þessi skrýtna málsvörn stjórnarliða að í raun hafi gjöldin hækkað (þótt þau hafi lækkað). Förum aðeins aftur yfir þetta:

1. Veiðileyfagjöldin eru núna 5 milljarðar kr.

2. Veiðileyfagjöldin voru 7 milljarðar í fyrra.

3. Veiðileyfagjöldin voru 10 milljarðar í hittífyrra.

4. Veiðileyfagjöldin voru 11,2 milljarðar þegar þessi ríkisstjórn tók við.

Þetta er lækkun samkvæmt allri stærðfræði í heimi.

Og þegar stjórnarliðar tala um að lagabreytingin sem þau gerðu árið 2018 hafi í raun þýtt hækkun þá er það líka afar sérstök röksemdarfærsla. Því öll umræðan á þeim tíma snerist um að með þessari lagabreytingu væri stjórnin að lækka gjöldin.

Því til sönnunar birti ég hér mynd úr umsögn Alþýðusambands Íslands frá þeim tíma þar sem er einmitt verið að vara við að þessi breyting þýðir lækkun ekki hækkun.

Virði aflaheimilda á Íslandi hefur verið metið á allt að 1.000 milljarða kr. Hugsum aðeins um þá tölu. Það kostar um 75 milljarða að reka allan Landspítalann.

Samkvæmt lögum eru fiskstofnarnir allir í sameiginlegri eigu þjóðarinnar. Einstök fyrirtæki eða fjölskyldur eiga ekki þessa auðlind, bara alls ekki. Þetta er skýrt í lögum.

Þess vegna er það gjörsamlega galið að við höfum stjórnmálaflokka, sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn og núna Vinstri græna, sem verja fram í rauðan dauðann þetta kerfi sem í raun færir örfáum einstaklingum í þessu litla samfélagi okkar öll þessi verðmæti. Af hverju gera þeir það?

Það eru gríðarlegir hagsmunir fyrir þjóðina að við náum að breyta þessu. En það eru líka gríðarlegir hagsmunir hjá þeim sem hagnast á þessu kerfi að verjast öllum breytingum.

Brauðmolakenningin um að þjóðin (og sérstaklega landsbyggðin) eigi bara að vera þakklát stórútgerðinni að það séu yfirleitt störf í sjávarútvegi er í rauninni kjánaleg. -Mér finnst fáránlegt að laxveiðimenn muni greiða hærra verð fyrir sín veiðileyfi heldur en stórútgerðin en það mun gerast í ár vegna ákvarðana þessarar ríkisstjórnar.

-Mér finnst fáránlegt að veiðileyfagjöldin nái ekki einu sinni lengur að dekka þann kostnað sem almenningur verður fyrir vegna þjónustu við greinina.

-Mér finnst fáránlegt að veiðileyfagjöldin hafi lækkað um meira en helming síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum.

Það er augljóst hvaða hagsmunir verða ætíð ofan á hjá þessari ríkisstjórn og það eru ekki hagsmunir almennings heldur hagsmunir stórútgerðarinnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: