- Advertisement -

„Sem tryggir öllum hópum húsnæðisöryggi og viðráðanlegan húsnæðiskostnað“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skrifaði:

Húsnæðismál eru eitt mikilvægasta lífskjaramálið fyrir almenning á landinu. Við höfum á undanförnum árum unnið markvisst að því að bæta húsnæðismarkaðinn og alla stjórnsýslu og upplýsingagjöf á því sviði. Farið var í umfangsmikla vinnu á síðasta kjörtímabili í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélögin. Út úr þeirri vinnu komu 40 aðgerðir á sviði húsnæðismála sem flestum er lokið eða komnar vel á veg en markmiðið með þessum aðgerðum var ekki síst að auka framboð hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði til leigu og eignar.

Þessar aðgerðir fela í sér stórauknar félagslegar áherslur, meðal annars með auknum stofnframlögum til almenna íbúðakerfisins sem er hugsað fyrir tekjulægri hópa og ný hlutdeildarlán til að aðstoða fyrstu kaupendur til að komast inn á markaðinn.

Nýtt innviðaráðuneyti þar sem skipulags- og húsnæðismál eru sett undir sama hatt mun auka samhæfingu þessara málaflokka sem er lykilatriði. Þó að sjaldan hafi verið byggðar fleiri íbúðir en á undanförnum tveimur árum er ljóst að enn vantar talsvert upp á til að mæta uppsafnaðri og fyrirséðri húsnæðisþörf næstu ára og ná markmiði um stöðugleika í framboði og verði á húsnæði sem tryggir öllum hópum húsnæðisöryggi og viðráðanlegan húsnæðiskostnað. Áfram er því verk að vinna til að ná fram lokamarkmiðinu um öruggt og jafnt aðgengi að góðu húsnæði fyrir alla landsmenn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eftir gott samtal á vettvangi þjóðhagsráðs þar sem saman koma fulltrúar ríkis, sveitarfélaga, Seðlabanka, heildarsamtaka á vinnumarkaði og atvinnurekenda, höfum við ákveðið að taka upp að nýju það samstarf sem leiddi til 40 mikilvægra aðgerða á síðast kjörtímabili. Markmiðið er að leggja mat á stöðuna og setja fram tillögur að aðgerðum að frekari umbótum í húsnæðismálum. Ég bind miklar vonir við þessa vinnu enda hefur samstarf þessara aðila hefur verið gott og leitt fram góðar lausnir sem hafa skilað okkur fram á við. Stóra markmiðið er að tryggja öllum þak yfir höfuðið og bæta þannig lífskjör fólksins í landinu.

Greinina birti Katrín á Faccebooksíðu sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: