- Advertisement -

Siðleysið finnur sér alltaf farveg

sme lllLEIÐARI Mig langar að byrja þennan lestur í smiðju bróður míns; Gunnars Smára Egilssonar ritstjóra Fréttatímans. Hann skrifaði um Borgunarmálið og eftir stutta útreikninga komst hann að því að slegið var Íslandsmet, í heppni. Hann skrifaði þetta:

„6,7 milljarða hagnaður nýrra hluthafa í Borgun vegna yfirtöku Visa International Service á Visa Europe, er án efa nýtt Íslandsmet í heppni.

6,7 milljarðar króna eru rétt tæplega samanlagðir allir vinningar í Laugardagslottóinu í tíu ár. Á verðlagi dagsins námu þeir rétt tæplega 7 milljörðum króna síðustu 10 ár.  Ef eitthvað er að marka yfirlýsingar hluthafa í Borgun, um að þeir hafi ekki haft grænan grun um að von væri á slíkum hagnaði, hlýtur þetta að teljast Íslandsmet í heppni.

Hagnaður Engeyinga og annarra hluthafa Borgunar er því viðlíka og ef þeir hefðu unnið alla vinninga í lottói síðan 17. júlí 2004. Ef við miðum aðeins við vinninga fyrir fimm tölur réttar þá jafngildir heppni þeirra því að þeir hafi fengið fimm tölur réttar í hverri viku allt frá 24. apríl 1999, seint á síðustu öld.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Já, þetta skrifaði Gunnar Smári. Það er þetta sem ergir fólk, að þurfa að horfa upp á hvernig útvaldir hafa fengið að söðla undir sig sameiginlegar eigur okkar. Þó reynt sé af öllum mætti að trúa að kaupendur Borgunarhlutarins hafi ekki vitað að framundan væri straumhvörf og að verðmæti fyrirtækisins myndu stórvaxa, er það bara ekki hægt. Við trúum ekki á að kaupendurnir hafi slegið Íslandsmet í heppni. Ekki eitt einasta augnablik.

Við vorum plötuð. Og þar sem þeir, sem héldu á okkar hlut, hlut þjóðarinnar, samþykktu eða létu tilleiðast að selja hlutinn og þar sem þeir hafa í starfi sínu selt margar aðrar eignir ríkisbankans er rétt að þeir upplýsi okkur um allar þær sölur sem þeir hafa gengið frá.

Hvað var selt, hverjum, fyrir hversu mikið, hverjir áttu frumkvæði að viðskiptunum, hafa einhverjir keypt meira en eina eign af bankanum, og ef svo er, hversu margar og hverjar og hver hefur framvindan orðið og svo framvegis.

Nú þarf að leggja öll spilin á borðið. Núna.

Skuldahreinsuð og afhent öðrum

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, er í löngu viðtalið við Morgunblaðið þar sem hún segir meðal annars: „Ég hef alveg séð nokkur dæmi þess að fyrirtæki í tímabundnum vandræðum hafi verið færð öðrum aðilum. Allt saman án útboðs eða upplýstrar umræðu.“ Já, það er nú það. Getur verið að svo hafi verið. Ég ætla að vitna aftur til Vigdísar, hún sagði einnig: „Lífvænleg fyrirtæki voru knésett og þau rifin af eigendum sínum, skuldahreinsuð og færð í hendur annarra. Þetta er það sem allir vita.“
Það er ekki víst að allir viti þetta, ekki ennþá.

Það eru margir kámugir á höndunum eftir að hafa fengið að stinga þeim í allar nammikrúsirnar. Píratar eru von margra um að breytinga sé að vænta. Þeir hafa ekki verið á leynifundum, þeir hafa ekki tekið þátt í ráðabruggi, fylgi við þá vex í sífellu.

Eru Piratar betri?

En eru þeir betri? Píratar eiga einn borgarfulltrúa og sá er hluti af núverandi meirihluta í borginni. Og þess vegna eru áhrif þeirra hér og þar innan borgarapparatsins. Pírati stýrir Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur.Vegna stöðu sinnar kemst hann með þekktu hugarfari með lúkuna í peningabauk og hann stakk henni í bólakaf.

Vísir segir í frétt af málinu: „ÍTR styrkir Áhugamannafélagið Lindy Ravers um 300 þúsund krónur en formaður ÍTR er stofnandi félagsins og sat sem formaður þess um nokkurra ára skeið. Þórgnýr formaður sagði sig ekki frá ákvörðuninni við afgreiðslu hennar. „Ég er tæknilega séð ekki vanhæfur í þessu máli en aftur á móti gerði ég ekki tillögu um styrkinn sjálfur heldur kom tillagan frá öðrum í hópnum sem tóku ákvörðunina. Ég bara samþykkti það,“ sagði Þórgnýr við Vísi.

Þetta eru mikil vonbrigði. Eru Píratar þá engu skárri en hinir. Vissulega er munur á til dæmis Borgunargróðanum, Íslandsmetinu í heppni, og 300 þúsund króna styrk borgarinnar til félags formanns ÍTR. En hugarfarið er eflaust ámóta. . „Ég er tæknilega séð ekki vanhæfur í þessu máli…“ sagði formaður ÍTR, Píratinn Þórgnýr Thoroddsen. Nú dæmir hver fyrir sig.

Íslendingar verða að gæta sín. Allt um kring er græðgi og þeim gráðugu er greinilega ekkert heilagt. Ríkið á miklar eignir og hefur sennilega sjaldan átt fleiri. Ég heyrði varaformann fjárlaganefndar Alþingis, Guðlaug Þór Þórðarson, segja á ÍNN, að við verðum að lækka skuldir ríkissjóðs og til að það verði gert verði að einkavæða, selja eignir ríkisins.

Kannski er það rétt hjá þingmanninum. En sporin hræða. Þá er ég ekki að tala um sporin frá því fyrir og eftir hrun, bara þau nýjustu. Það er vont að geta ekki treyst, en ástæðurnar fyrir vantraustinu blasa við okkur, hvert sem við lítum.

Ég tók, að ég held, síðasta viðtalið sem var tekið við dr. Jónas Haralz. Það var ekki löngu eftir hrun og þá sat ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og keppst var við að semja nýjar reglur og ný lög til að koma í veg fyrir að önnur eins ósköp gerðust aftur. Við Jónas töluðum það. Hann sagði að hvað sem við settum mikið að reglum og lögum væri eitt víst, að siðleysið myndi alltaf finna sér farveg.

Sigurjón Magnús Egilsson.

Var flutt í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni fyrr í dag.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: