- Advertisement -

Það vantar ekki kindakjöt á Íslandi

LANDBÚNAÐUR Sigríður Jónsdóttir, sauðfjárbóndi í Arnarholti, vakti athygli fyrir kröftugan málflutning í útvarpsviðtali. Sigríður vildi að sauðfjárbændur höfnuðu nýgerðum búvörusamningi.

Sigríður taldi mikla afturför verða vegna þess að leggja á af framleiðslustjórn með samningnum.

„Megin virði núverandi beingreiðslukerfis liggur í þeirri framleiðslustjórnun sem í því felst. Afnám beingreiðslna jafngildir afnámi framleiðslustjórnunar. Með stuðningskerfi nýja samningsins munu bændur keppa beint hver við annan um framleiðslustyrkina, með því að framleiða sem mest. Þannig samkeppni mun óhjákvæmilega leiða af sér aukna framleiðslu. Og það virðist vera helsta gulrótin í samningnum; tækifærið til að framleiða meira.“

Framleiðum of mikið

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Við erum að framleiða meira en við ættum að gera. Við flytjum út dálítið af kjöti og það er í sjálfu sér ágætt en við fáum frekar lágt verð fyrir útflutning. Og það er einmitt verið að veifa því sem gulrót framan í kjósendur þessa samnings að það séu stóraukin tækifæri í auknum útflutningi og að við getum fengið mikið hærra verð, en þetta eru nú ræður sem við höfum heyrt áður. Það er allur heimurinn að reyna að komast inn á þessa markaði og þetta eru bara leyfi ég mér að segja blekkingar.“

„Ef við erum að framleiða meira en við í rauninni getum selt á móti þá sköðumst við á því, við fáum ekki tekjur. Til skemmri tíma myndi framleiðslan aukast mjög mikið og því myndi fylgja gríðarlegt verðfall fyrir okkur.“

Verðum að hafna samningnum

„Okkur verður sagt að nýliðum verði gert auðvelt að byrja að búa. Það vantar ekki fleiri sauðfjárbændur. Því miður. Sauðfjárbændur vantar meiri tekjur og þær fást ekki með því að fleiri bændur framleiði meira.

Offramleiðsla mun valda verðfalli afurða á öllum stigum verðmyndunar og allir munu tapa á því. Byggðirnar í landinu eru í nógu mikilli hættu þó að ekki verði vegið að sauðfjárræktinni með algerum afkomubresti.

Okkur verður sagt að með afnámi kvótakerfis munu peningar hætta að flæða út úr greininni með kvótakaupum. En hvert hafa þeir peningar farið? Þeir hafa farið til sauðfjárbænda. Það ætlast enginn til að sextug hjón í Kópavogi gefi ungu pari íbúð, sjoppu eða innflutningseinkaleyfi. En atvinnutækifæri til sveita eiga að vera gefins.“

Sigríður skora’i á sauðfjárbændur að hafna samningnum.

 (Viðtalið er úr þættinum Sprengisandur á Bylgjunni, undir stjórn Sigurjóns M. Egilssonar, í mars 2016).


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: