- Advertisement -

Vilja nú matast í kranabómu

sme llSPRENGISANDUR Fyrir nokkrum árum varð nýríka fólkið, broddborgarar þess tíma, að hafa borðað á mastursstólpa sem er í Kollafirði miðjum og við sjáum þegar við keyrum fyrir Kollafjörð. Masturstólpinn mun vera með um þrjátíu fermetra og sléttan topp. Þangað var gullætum og öðrum flogið með þyrlu. Áður hafði verið flogið með þjóna og kokka sem undirbjuggu herlegheitin. Að borða á miðjum Kollafirði var kannski ekki inngönguskilyrði í heim oflátunga, en skipti vissulega máli.

Nú er í undirbúningi aðfólkið borði veitingar dinglandi í krana tugum metra ofan Klambratúns. Trúlegast eru innan við tíu ár síðan samskonar, jafnvel sama fólk, skvetti úr klaufunum á mastursstólpanum fræga. Nú skal dinglað yfir venjulega fólkinu, og svo hægt að sé að líta niður á almenninginn, bæði í anda og verki.

Við hin getum að sama skapi séð undir yljar og rassgöt holdgervinga græðginnar og sjálftökunnar.

Nú, sem á tímum Kollufjarðarstólpans, er meðal okkar fólk sem veit barasta ekkert hvað það á af sér að gera eða hvernig það getur varið öllum þeim peningum sem það hefur fengið, með einum eða öðrum hætti.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er trixið

Meðal okkur er fólk sem er Íslandsmeistarar í heppni. Keyptu Borgun af bankanum fyrir slikk, og á einu augabragði græddi það gnótt. Nú stendur víst vilji einhverjar þeirra til að kaupa Þríhnjúkagíg, já trúlegast fyrir hluta af Borgunarpeningunum.

Bankamenn margir hverjir verja nú frístundum sínum til að telja bónusa sína, sem er eflaust í huga einhverra, verðkulduð viðurkenning fyrir þátttöku í ofsagróða bankanna.

Já, talandi um það. Hvaðan fá bankarnir aftur peningana? Vegna framleiðslu eða sköpunar eða kannski í sjálftöku? Er það ekki svo að bankarnir skammta sér hagnað? Höfum við tölu á til dæmis hversu mörg þjónustugjöld og hversu há, flækjumeistarar bankanna hafa fundið upp? Sennilega ekkert okkar. Enda er leikurinn til þess gerður. Hann á að vera flókinn? Það er trixið.

Við bara borgum

Tryggingafélag græddi tvo milljarða á síðasta ári. Stjórnendur þess sjá víst engann annan kost en að greiða, af því tilefni, fimm milljarða í arð. Við hin eigum erfitt með að skilja hvernig það gengur upp, en við erum hvort sem er ekkert á leið í fljúgandi veitingastað eða nokkuð annað svo geggjað.

Önnur tryggingafélög græddu líka gnótt. Og sum þeirra vilja einnig borga margfaldan gróða síðasta árs í hagnað. Ísland, best í heimi.

Við bara borgum iðgjöldin okkar rétt einsog við borgum þjónustugjöldin sem bankinn þarf til að græða svo mikið og borga þá miklu bónusa sem fréttir berast af. Bónusar og arður. Það er það sem allt snýst um. Þegar reksturinn er svo einfaldur að ekkert þarf að gera annað en hækka álagningar eða finna upp nýja tekjustofna, svo ekki sé talað um að fá forgang að kaupa ríkiseignir, sem og aðrar, þá endar þetta allt í kranabómu á Klambratúni. Hvernig er hægt að ætlast til þess að forgangsfólkið éti sínar steikur á jörðu niðri. Fljúgðu, fljúgðu hærra.

Eigum við ekki að gleðjast?

Ríkið á banka. Bankinn borgar arð til ríkisins. Fjármálaráðherra gleðst og segir það styrkja stjórnendur bankans. Þá sömu og afhentu Borgunarhlut bankans. Bankastjórinn verst með því að benda á hversu klár bankamaður hann er, með vísan til arðsins sem bankinn borgar til fjármálaráðherra.

Eigum við hin að gleðjast? Að bankinn ofrukki okkur svo svakalega að hann hafi tugþúsundir milljóna til ráðstöfunar, aftur og aftur? Varla. En svona er þetta. Senn á ríkið tvo banka og Alþingi hefur samþykkt að selja annan þeirra á þessu ári með húð og hári, manni og mús og tæpan þriðjung í hinum.

Eigum við að giskaá úr hvaða hópi Íslendinga kaupendurnir muni koma? Og hversu mikla peninga þeir muni sjálfir leggja fram við kaupin? Það er óþarfi. Trúlegast verður þeim slakað niður úr Klambratúnskrananum rétt á meðan þeir skrifa undir.

Nú er nánast sama hvar drepið er niður fæti. Við erum á fleygiferð. Og það sem verst er að að við erum með sjálfstýringuna í sömu stefnu og áður. Ofgnótt, munaður, óþarfi, græðgi, oflæti og allt hitt er framundan.

Nánast hvern dag eru ekki sagðar fréttir af slíku. Meðal okkar er fólk sem hefur þá stöðu, umfram aðra, að mega eitt nýta sameiginlegar auðlindir okkar allra. Um leið er eitt helsta deilumál meðal þjóðarinnar, hvort það fólk borgi nægilegt afgjald vegna sérstöðu sinnar, eða ekki.

Því fólki er svo mikið sama um dægurþras okkar hinna. Á sama tíma ákveður það að borga sér allt að fjórum sinnum meira í arð en það borgar í afgjald að forréttindunum. Þetta er alveg geggjað.

Réttu póstnúmerin

Forsætisráðherra sagði um daginn að við sem búum hér á mölinni virðumst halda að það fólk sem býr annarsstaðar sé til þess eins að veiða fisk og senda svo peningana í tvö póstnúmer í Reykjavík. Það er alrangt hjá honum. Sum okkar hafa lifað og starfað utan höfuðborgarinnar. Sumum okkar hefur orðið kalt á höndunum og illt í bakinu við erfiða vinnu. Við skiljum Ísland í raun. Ekki bara að nafninu til, ágæti forsætisráðherra.

Hvaða póstnúmer ætli forsætisráðherra hafi átti við? Þekkt er að sægreifar þessa lands styrkja bara tvo stjórnmálaflokka, flokka sem standa vörð um það kerfi sem unnið er eftir. Annar þeirra er með heimilisfestu við Hverfisgötu í póstnúmeri 101 og hinn býr að Háaleitisbraut 1 í póstnúmeri 105. Þá vitum við hvaða póstnúmer var átt við.

Sigurjón Magnús Egilsson

Var flutt í Sprengisandi í morgun, sunnudaginn 28. febrúar 2016.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: