- Advertisement -

Sigurði Inga keyrði út í móa, á Sprengisandi

Það var verulega óþægilegt að hlusta á Sigurð Inga…

Sigurjón Þórðarson skrifar:

Sigurður Ingi formaður Framsóknarflokksins kemur almennt fyrir sjónir sem hógværðin ein, traustur maður sem vill vera á miðjunni til þess að fara hvorki út af til hægri eða vinstri á ferðum sínum.

Ætla mætti að stjórnmálamaður sem hefur svo skýrt leiðarljós gæti svarað einföldum spurningum með skýrum hætti t.d. um hvorta miklar líkur sé á að ríkisstjórn sem hann er búinn að vera að vinna að svo vikum skipti sé að komast á koppinn í vikunni, líkt og forystumenn samstarfsflokkanna hafa haldið fram – svo var alls ekki í viðtali sem haft var við hann í Sprengisandi á sunnudaginn. Helst mátti skilja á formanni Sigurði Inga að það væru loftslagsmálin sem flæktust fyrir myndun nýrrar ríkisstjórnar og nauðsyn þess að skipta um orkugjafa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í gegnum þetta tal um; hringborð norðursins, nýja orkugjafa, loftslagsmál og „nýjan veruleika“, skein furðuleg krafa í gegn á þá leið, að íslenska stjórnarráðið yrði stokkað algerlega upp frá grunni, svo hægt verði að endurspegla aukið fylgi Framsóknarflokksins í síðustu kosningum!

Það var verulega óþægilegt að hlusta á Sigurð Inga að ræða um sýn sína á sjávarútvegsmál, þegar hann var spurður út í samþjöppun í greininni og þann hagnað sem rennur í örfáa vasa af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

Svörin voru þannig að hógvær þáttarstjórnandinn hafði orð á því, að hann skildi ekkert hvað Sigurður Ingi væri að fara þegar hann hafði lokið langri tölu m.a. með vísun í skýrslu sem Samherjaráðherrann lét einn af höfundum kvótakerfisins gera um kerfið, meinta sókn í markaðsmálum með sjávarafurðir og auknum dyggðum í sjávarútveginum.

Flest ef ekki allt sem Sigurður Ingi vísaði til, er algert rugl eða í besta falli barnalegt.

Byrjum á dyggðunum; Kerfið hvetur til brottkasts sem hefur ítrekað verið staðfest af Hafró og Fiskistofu, stærstu sjávarútvegsfyrirtækin fara ekki að lögum og virða ekki kvótaþakið og valdamestu stjórnendur í íslenskum sjávarútvegi eru grunaðir um alþjóðlega fjármálaglæpi,

Markaðssetning á sameiginlegu vörumerki er vart til staðar og íslenskar fiskafurðir hafa fyrir löngu misst sérstöðu sína, enda eru meira og minna öll stærri sjávarútvegsfyrirtækin að selja sínar afurði í gegnum eigin söluskrifstofur. Hver ætli ástæðan sé fyrir því – Leyfum Baldvini Þorsteinssyni að útskýra það;

Að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins þar sem enginn skattur er á hagnað fyrirtækisins. Við teljum Kýpur vera rétta landið. Með því að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins Kötlu Seafood getum við lækkað skiptahlut sjómanna og stjórnað betur á hvaða verðum við myndum gera upp. […] Með því að draga úr hagnaði þar og láta hagnaðinn myndast hjá sölufyrirtækinu þá tækist okkur að auka hagnað heildarinnar. Þetta teljum við nokkuð snyrtilega leið til að draga úr skattgreiðslum.“

Skýrslan um stöðu íslensks sjávarútvegs, var gerð á vegum Samherjaráðherrans Kristjáns Þórs, en það er ljóst hverjum hann hyglaði í smáu og stóru í sinni ráðherratíð. Ekki bætir úr skák að ritstjóri skýrslunnar er einn af þeim sem hafa haft mótandi áhrif á nýtingarstefnu í sjávarútvegi og nær undantekningalaust haft rangt fyrir sér m.a. boðað ágæti hrikalegra aðgerða á borð við að hætta þorskveiðum í 2 ár (Sjá bls. bls. 31 á tengli), eða árin 2008 og 2009. Ritstjórinn er ekki óháðari en svo að hann er að stórum hluta að fella dóma um eigin smíð.

Það er ljóst ef þessi verða viðmiðin við stefnumörkun flokksins að þá stefnir Framsóknarjeppinn ekki inn á miðjuna heldur hraðbyr út í móa.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: