- Advertisement -

Skaparinn myndaði ekki ríkisstjórnina

„Ef allir fætur kóngulóarinnar hefðu sjálfstæðan vilja væri sú skepna líklega útdauð. Þökk sé skaparanum er hún þannig úr garði gerð að hún samhæfir fótaburðinn. Skaparinn kom hins vegar ekkert að myndun þessarar ríkisstjórnar. Ráðherrar og stjórnarliðar hlaupa nú út og suður, hver í sína áttina, og lítil regla er á galskapnum. Við vitum að Bob Dylan, Beyonce, Kristinn Sigmundsson og Björk eru öll magnaðir söngvarar en væru sennilega ekki góð saman í kór, alla vega ekki ef þau útsettu eigin lög og veldu lögin sjálf.“

Þannig mæltist Loga Einarssyni á þingi í dag. Hann var bara rétt að byrja.

Háttvirtir þingmenn eru ósammála um grundvallaratriði. Benedikt Jóhannesson og Haraldur Benediktsson um tímasetningu bankasölu. Nichole Leigh Mosty og Kristján Þór Júlíusson um 25 ára regluna. Theodóra Þorsteinsdóttir og Brynjar Níelsson um rannsókn á einkavæðingu Landsbankans. Teitur Björn Einarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir um sjávarútvegsstefnuna. Jón Steindór Valdimarsson og Óli Björn Kárason um ESB-umsókn. Páll Magnússon og Hanna Katrín Friðriksson um landbúnaðarmálin. Sigríður Andersen og Óttarr Proppé um rekstur heilbrigðiskerfisins. Björt Ólafsdóttir og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir um ívilnunarsamninga stóriðju. Jóna Sólveig Elínardóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson um EES-samninginn. Og loks Þorsteinn Víglundsson og Sigríður Andersen um jafnlaunavottun. Ég gæti haldið áfram.“

Króna eða evra

Logi sagði að á síðasta ársfundi Seðlabankans; „…sagði forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Endurskoðunin gengur út frá þeirri forsendu að krónan verði í næstu framtíð gjaldmiðill Íslendinga.“

Og í nýlegu viðtali við Suðra sagði fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Það hefur aftur á móti ekki verið neinn vafi í mínum huga að farsælast fyrir okkur Íslendinga væri að taka upp evru.“

Hvað með fótaburðinn?

„Er hæstvæstvirtur fjármálaráðherra ánægður með fótaburð ríkisstjórnarinnar? Hefur þessi ósamhæfni gert að verkum að mál hafa komið seint og illa hingað inn? Finnst ráðherranum yfir höfuð trúverðugt að leggja fram fimm ára fjármálastefnu núna þegar stjórnarliðar eru ósammála í grundvallaratriðum og hægra og vinstra heilahvelið geta ekki komið sér saman um hvaða peninga á að nota?“

Það eru þrír flokkar í ríkisstjórninni

Benedikt Jóhannesson var til svara, þar sem hann sagði til dæmis: „Það er hins vegar alveg rétt hjá háttvirtum þingmanni að það eru þrír flokkar í ríkisstjórn og þeir eru ósammála í mörgum málum. Það er eðlilegt. Þeir eru hins vegar sammála um ákveðin mál og um það er ríkisstjórnarsamstarfið. Það er ekkert óeðlilegt við að flokkar sem héldu einhverju fram fyrir kosningar og höfðu þá mismunandi stefnu hafi ekki breyst eftir kosningar. Mér finnst ekkert að því. Hins vegar semja menn um niðurstöðu ákveðinna mála. Það er það sem ríkisstjórnin snýst um. Ég veit að það eru ekki allir minnihlutaflokkarnir sammála um öll mál. Það er bara eðlilegt. Það eru fjórir flokkar í minni hluta. Og meira að segja innan flokka eru ekki allir sammála, jafnvel í tiltölulega litlum þingflokkum koma fram mismunandi áherslur á hinum ýmsu málum. Mér finnst ekkert að því. Þannig eru skoðanaskipti. Þannig er lýðræðið.“

 

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: