- Advertisement -

Skattbyrðinni verði skilað til þeirra ríku

Umfangsmikil tillaga um lagfæringar á skattkerfinu lögð fram á Alþingi. Skattbyrði þeirra fátækustu hefur margfaldast meðan hún hefur lækkað hjá þeim ríkustu.

„Með tillögunni er undið ofan af langvarandi þróun þar sem skattbyrði hefur flust frá tekjuháum til tekjulágra,“ segir meðal annars í greinargerð þingsályktunartillögu sem nokkrir þingmenn leggja fram. Ólafur Ísleifsson er fyrsti flutningsmaður.

Tillagan sjálf er svona: „Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að beita sér fyrir því að mánaðartekjur einstaklinga undir 300.000 kr. verði undanþegnar skattgreiðslum og gera með laga- og reglusetningu viðeigandi ráðstafanir í því efni fyrir árslok 2018.“

Tvöföldun skattleysismarka

Greinargerðin er ítarleg. Þar má t.d. sjá þetta:

„Þingsályktunartillagan felur í sér að fjármála- og efnahagsráðherra er falið að gera tímasetta áætlun um að tekjur einstaklinga undir 300.000 kr. verði undanþegnar skatti. Þau skattfrelsismörk samsvara 106.387 kr. persónufrádrætti. Um tvöföldun skattleysismarka er að ræða. Forsendur útreikninga í skýrslu Hauks Arnþórssonar og í þessari greinargerð eru að skattþrep séu óbreytt. Tölur eru rauntölur fyrir árið 2017.“

Eins og tíðkast á Norðurlöndunum

„Markmið þessarar tillögu eru tvö: annars vegar að jafna skattbyrði milli tekjuhópa þannig að þátttaka ríkra og fátækra í rekstri samfélagsins verði líkari því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og hins vegar að hlífa þeim sem eru með tekjur undir framfærslumörkum við að greiða samfélaginu skatta af þeim tekjum. Tillagan stuðlar að tilfærslu fjár innan skattkerfisins sem kemur fram í lægri skattheimtu hjá tekjulágu fólki og hærri hjá þeim sem hafa háar tekjur. Með tillögunni er undið ofan af langvarandi þróun þar sem skattbyrði hefur flust frá tekjuháum til tekjulágra.“

Og svo þetta: „Tillagan eykur ráðstöfunartekjur um 70% skattgreiðenda, sérstaklega þeirra sem eru á lágum launum á vinnumarkaði eða á lífeyri.“

Auk Ólafs Ísleifssonar eru þingmennirnir Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Inga Sæland og Karl Gauti Hjaltason á tillögunni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: