- Advertisement -

Sólveig Anna Jónsdóttir

Sigurjón Magnús:

Án Sólveigar Önnu ætti fátækasta launafólkið ekki málsvara sem hana. Því er þess óskandi að hún standi af sér allar persónulegar árásir. Sama hvaðan þær koma.

Þau eru ekki endilega betri sem skemur vilja ganga. Sólveig Anna Jónsdóttir er ákveðin. Hún vill bæta kjör láglaunafólks. Það hefst ekki alltaf með friði og spekt. Ég man Dagsbrúnarfundina í Austurbæjarbíó. Alvöru fundir. Guðmundur jaki stóð á sviðinu og leyfði frammíköll. Í upphafi funda. Aldrei var það svo að hann hafði stuðning allra Ekki í upphafi funda. Þegar hann svo vildi tala karlana til kom í ljós baráttuþrek og hugsjón. Í fundarlok var einhugur með karlana í Dagsbrún.

Ég er ekki að bera þau saman Sólveigu Önnu og Gvend jaka. Enda uppi á allt öðrum tímum. Sólveig Anna þarf að þola harðar persónulegar árásir. Stundum svarar hún í sömu mynt. Eðlilega.

Með framgöngu sinni hefur Sólveig Anna eignast fjandvini. Þeirra á meðal eru gamlir hrossabrestir sem fara sínu fram. Eira engu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Verst er þó hversu margir forsvarsmenn annarra stéttarfélaga tala Sólveigu Önnu niður. Það eitt að Efling nefni að dýrara sé að búa í Reykjavík en víðast annars staðar getur ekki kallað á öll þau viðbrögð sem hafa verið notuð í baráttunni gegn henni.

Hér eru kauptaxtarnir sem Efling setti fram og fulltrúar Samtaka atvinnulífsins vildu ekki einu sinni ræða. Og komust upp með það. Ennþá hið minnsta. Sjáum til hvað verður.

Sólveig Anna veldur ókyrrð meðal forystusveitar SA og nú líka hjá ríkissáttasemjara. Það munar um hana hvar sem hún fer. Hún ætlar að bæta kjör verst setta fólksins. Og ekki er vanþörf á.

Ég þekki hvernig það er að óvíst sé hvort verði til matur. Eða hvort unnt sé að kaupa föt. Hvað þá þegar búið var að loka fyrir hitann vegna skulda. Lifði marga kalda daga. Því miður er enn börn sem lifa við skort. Og minni tækifæri en margir aðrir.

Loksins kom manneskja sem er tilbúin að berjast fyrir þannig statt fólk. Launakrafa Eflingar er mjög hófsöm. Of hófsöm kunna einhver að segja.

Án Sólveigar Önnu ætti fátækasta launafólkið ekki málsvara sem hana. Því er þess óskandi að hún standi af sér allar persónulegar árásir. Sama hvaðan þær koma.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: