- Advertisement -

Spegilmynd þvælu er líka þvæla

Samfélagslegur rekstur útgerðar og fiskvinnslu byggði upp sjávarbyggðirnar á síðustu öld, samvinnufélög og bæjarútgerðir, en einkarekstur braut byggðirnar niður á síðustu áratugum.

Gunnar Smári skrifar opið bréf til Samfylkingarfólks.

Ágæta Samfylkingarfólk, má ég benda ykkur á ástæður þess að þið komist að rangri niðurstöðu í hverju máli, nú síðast varðandi 3ja orkupakkann? Ef ekki, þá hættið þið bara að lesa.

Jæja, vandinn er sá að Samfylkingin er með of þröngt sjónarhorn á stjórnmál. Í stað þess að nýta sér sjónarhorn sósíalismans, greina samfélagið út frá stéttabaráttu og skilgreina auðvaldið sem andstæðing alþýðunnar, hefur flokkurinn gengist inn á þá trú að auðvaldið geti verið þátttakandi og jafnvel samverkamaður í samfélagslegum breytingum sem bæta kjör og auka réttindi almennings. Stjórnmál hætta þá að vera grundvallarbarátta almennings (sem byggir upp félagslegt afl í gegnum verkalýðsfélög og hinn lýðræðislega vettvang) gegn auðvaldinu (sem beitir auði sínum til að verja og styrkja hagsmuni sína, fyrst og fremst með því að brjóta niður kjör og réttindi almennings) og breytist í … tja, einskonar sjálfstjáningu fólks sem sækist eftir að vinna við stjórnmál.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Flokksmönnum kann að finnast það framsækin stefna að vera öndverðrar skoðunar við Sigmund Davíð eða Bjarna Ben.

Með því að horfa fram hjá grundvallarátökum samfélagsins, átökum milli þeirra sem eiga og eignast sífellt meira og þeirra sem lítið sem ekkert eiga; þá smættast stjórnmálin niður á leikvöll þings og sveitastjórna. Enginn berst lengur fyrir félagslegum rekstri atvinnufyrirtækja, verkalýðshreyfingin af-pólitíkvæðist, hin linnulausa stéttabarátta á öllum vígstöðvum leggst af og stjórnmálin verða takmörkuð við leik atvinnufólks á fyrrgreindum völlum.

Og ef þú ert staddur innan þessara valla kann svo að virðast að höfuðandstæðingur hinna (fyrrum) sósíalísku flokka sé Sjálfstæðisflokkurinn. Eða Miðflokkurinn, þann tíma sem hinir sósíalísku flokkar renna inn í ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins. Flokksmönnum kann að finnast það framsækin stefna að vera öndverðrar skoðunar við Sigmund Davíð eða Bjarna Ben. Inn á vellinum þarftu ekki að skilgreina hagsmuni alþýðunnar í stéttastríðinu, aðeins hver sérstaða þín er gagnvart skilgreindum andstæðingum í leiknum, þennan daginn eða hinn.

Auðvitað er það rétt hjá Samfylkingunni að forsendur Miðflokksins fyrir andstöðu sinni við 3ja orkupakkanum eru rangar í fyrsta lagi (byggðar á rangindum um fullveldisafsal) og vitlausar í öðru lagi (vörn fyrir innlent auðvald gegn alþjóðlegum reglum og eftirliti). Samkvæmt Miðflokknum er orkustefna Evrópusambandsins tæki til að brjóta íslenskt fullveldi undir stjórnsýsluna í Brussel. Þess vegna er Miðflokkurinn á móti 3ja orkupakkanum. En þótt Miðflokkurinn hafi farið ranga leið til að komast að vitlausri niðurstöðu, er ekki þar með sagt að það séu hagsmunir alþýðunnar að taka þveröfuga afstöðu; að halda því fram að 3ji orkupakkinn sé brjóstvörn almennings gagnvart innlendu auðvaldi. Spegilmynd þvælu er líka þvæla, eiginlega enn meiri þvæla, eins og heyra hefur mátt af rökum hinna æstustu fylgismanna 3ja orkupakkans.

Markmið Evrópusambandsins er að markaðssvæða allt samfélagið.

Hagsmunir almennings eru að berjast gegn niðurbroti nýfrjálshyggjunnar á þeim innviðum og grunnkerfum sem byggð voru upp á síðustu öld af kröfum verkalýðshreyfingarinnar og annara hagsmunasamtaka almennings. Þá byggði almenningur upp orkukerfi með samtakamætti sínum; byggði upp hita- og rafmagnsveitur og rak þær með samfélagslegum markmiðum. Við getum deilt um einstakar ákvarðanir, en til að breyta þeim er réttara að styrkja völd almennings á hinu pólitíska sviði en að strípa hið pólitíska svið völdum sínum. Á nýfrjálshyggjuárunum var reynt að brjóta niður ávinning almennings og samkeppnis-, markaðs- og einkavæða orkugeirann á sama tíma og auðvaldið teygði krumlur sínar inn í aðra innviði og grunnkerfi samfélagsins, heilbrigðis- og menntakerfi, peningaveitukerfi bankanna og önnur svið sem alþýðunni hafði tekist að gera að almenningi á síðustu öld; að verkefni hins lýðræðislega vettvangs, sem er varnartæki alþýðunnar til að verjast hinu grimma ofurvaldi auðvaldsins. Því miður er Evrópusambandið í grunninn tæki hins alþjóðlega auðvalds til að brjóta undir sig þau svæði samfélagsins sem áður tilheyrðu félagslegum rekstri og hinum lýðræðislega vettvangi. Markmið Evrópusambandsins er að markaðssvæða allt samfélagið. Evrópusambandið hefur gert sitthvað samhliða, sumt sem bætt hefur stöðu almennings, en meginmarkmið þess hefur alltaf verið að þjóna auðvaldinu og það hefur orðið æ augljósara á síðari árum. Orkustefna ESB er akkúrat svona; snýst um að samkeppnis-, markaðs- og einkavæða orkugeirann í sannfæringu um að félagslegur rekstur og samfélagslegar stofnanir geti aldrei skilað almenningi réttri niðurstöðu; það geti aðeins einkarekin hlutafélög sem einblína aðeins á arðsemi, hversu mikið fé hægt er að draga frá launafólki og neytendum til að færa til eigenda hlutafjárins.

Það er af þessum ástæðum sem sósíalistar eru á móti 3ja orkupakkanum. Það er vegna þess að það þjónar ekki hagsmunum alþýðunnar að færa orkugeirann yfir í samkeppnisrekstur einkafyrirtækja. Við þekkjum slíkt kerfi innan sjávarútvegsins þar sem þjóðin á að nafninu til auðlindina en einkafyrirtæki stýra nýtingunni, leggja niður atvinnu í sjávarbyggðum ef það skilar eigendum þeirra meiri arði, flytja vinnslu út á sjó, aftur í land eða til Kína ef eigendurnir telja sig geta grætt á því. Samfélagslegur rekstur útgerðar og fiskvinnslu byggði upp sjávarbyggðirnar á síðustu öld, samvinnufélög og bæjarútgerðir, en einkarekstur braut byggðirnar niður á síðustu áratugum.

Ef Samfylkingarfólk rifjar upp uppruna síns flokks og um leið þá staðreynd að stéttastríðið er grunnátök í öllum samfélögum og að það stríð er háð út um allt samfélagið á óteljandi vígstöðvum en ekki aðeins í púltunum á þingi eða í sveitarstjórnum, þá rennur upp fyrir því að það er ekki nóg ígrundun í pólitík að vera bara alltaf ósammála Sigmundi Davíð. Eða Guðna Ágústssyni. Ef þessir tveir eru heimskir karlar þá er enn vitlausara fólkið sem gerir þá að leiðtogum lífs síns, og á það líka við um þau sem kjósa alltaf að vera á öndverðum meiði við þessa karla.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: