- Advertisement -

Stjórnarandstaðan segir nei

- Páll Magnússon bað andstæðinga stjórnarinnar að taka mál til baka, og að ráðherraskipuð nefnd tækui þau yfir.

Stjórnarandstæðingar sögðu ekki koma til mála að dregin yrðu til baka þingmál um stjórn fiskveiða, einsog Páll Magnússon, formaður atvinnuveganefndar mun hafa farið fram á.

„…að menn séu að reyna að fækka málum handvirkt á dagskrá með því að stinga upp á því við minni hlutann á þinginu að draga mál til baka sem tengjast þessum málaflokki finnst mér algjörlega út í hött og ekki boðleg vinnubrögð og ég geri þess vegna miklar athugasemdir við það,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokks.

 „Það er ekki fyrr búið að losa sig við eina snjóhengjuna en önnur tekur við. Nú eru það uppsöfnuð mál sem hafa komið allt of seint inn á þingið. Ég tek undir með Þórunni Egilsdóttur að það er náttúrlega óboðlegt að beðið sé sérstaklega um það að mál séu tekin af dagskrá. Og út af hverju? Vegna þess að það eigi að ræða þau í nefnd sem ráðherra hefur skipað? Er það þannig að þingmenn, og er það skilningurinn á þingræðinu, eigi að draga sig inn í híði, leggja niður skottið og bíða bara eftir því hvað nefndir út í bæ ákveða? Við lítum svo á að þetta mál sé innlegg í þá umræðu og við krefjumst þess að það verði á dagskrá,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra blandaði sér í umræðna.

„Ég held að formaður atvinnuveganefndar hafi gert mjög vel grein fyrir máli sínu, hvernig því var háttað í morgun. Ég kem hingað upp til að bera af mér sakir af því að ég heyri að þingmenn, t.d. frá Pírötum, segja að þetta hafi m.a. verið fyrirskipun úr ráðuneytinu. Hitt er annað að ég vil benda á og vara við því að menn tali þverpólitísku nefndina niður sem ég skipaði í gær. Ég vek athygli á því að ekki er verið að skipta eftir stjórn eða stjórnarandstöðu, allir flokkar koma að borðinu. Þá hefur mér verið bent á, gott og vel, að stjórnarandstaðan hafi meiri hluta í nefndinni. Ég vona að menn gangi út frá því að þeir ætli að vinna að málinu í sátt til lengri tíma litið með heildarhagsmuni bæði sjávarútvegs og samfélagsins í huga hvað það varðar, en ekki fara í hnútukast eins og mér finnst málið svolítið vera að fara í hér.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: