- Advertisement -

Stórisannleikur Ásgeirs Jónssonar

Óbreyttir 9,25% stýrivextir 20. marz eru fyrir undirrituðum algjör ósvinna og til þess fallnir að sprengja upp baráttuna við verðbólgu í stað þess að styðja við hana.

Ole Anton Bieltvedt.

OLE ANTON BIELTVEDT skifar:

Efnahagsmál Bandaríski Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz er einn fremsti og virtasti hagfræðingur nútímans. Hann hefur gegnt mörgum helztu embættum heims á sviði hagfræði og efnahagsmála.

Hann var t.a.m. yfirhagfræðingur Alþjóðabankans, yfirmaður efnahagsráðs bandarískraforseta (Clinton, Obama), formaður nefndar, sem SÞ skipuðu til að endurskoða hin alþjóðlegu peninga- og fjármálakerfi, auk þess að vera yfirmaður hagfræðideildar Columbia- háskóla.

…að seðlabankar heimsins hafi hellt olíu á eldinn…

Hann hefur skrifað fjölmörg fræðirit um hagfræði og efnahagsmál. 2001 fékk hann svo Nóbelsverðlaunin í hagfræði, þá tæplega sextugur.

Kastljós/RÚV átti nýlega afar athyglisvert viðtal við Stiglitz um beitingu stýrivaxtahækkana, síðustu 2-3 árin, í því skyni, að hemja verðbólgu.

Á vefsíðu RÚV stendur m.a. þetta, þar sem vitnað er í samtalið:

Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz segir, að seðlabankar heimsins hafi hellt olíu á eldinn með því að hækka stýrivexti í baráttu sinni við verðbólgu. Verðbólga…sé ekki að minnka vegna stýrivaxtahækkana… heldur segir Stiglitz, að verðbólgan hafi orsakast af hökti í framboði og eftirspurn(sem hafi verið að jafna sig).

Verðbólgan, sem hefur herjað á heiminn að undanförnu, er að hans mati að miklu leyti tengd við verð á matvælum og orku. Skapar hækkun vaxta meira af matvælum eða meira af orku, sem lækkar verðið? spyr svo Stiglitz.

Áfram heldur viðtalið:

Það má sýna fram á, að, þegar maður ræður yfir slíku markaðsvaldi (stýrivöxtunum), þá þýðir hækkun vaxta, að þeim er velt út í verðlagið; þetta verði til að auka á verðbólgu enn frekar. – Núverandi lækkun á verðbólgu sé því ekki hægt að rekja til stýrivaxtahækkana.

….þröng sérfræðiþekking getur reynst ófullnægjandi…

Hér lýkur þessum tilvitnunum í sennilega klárasta núlifandi hagfræðing heims.

Í þessu samhengi er freistandi fyrir undirritaðan að rifja nokkuð upp eigin skrif um þessi mál, síðustu misserin, sem Ásgeir Jónsson og Peningastefnunefnd gerðu auðvitað ekkert með.

Fyrir mér sannast það hér – reyndar hef ég upplifað það oft  – að þröng sérfræðiþekking getur reynst ófullnægjandi og jafnvel viðsjárverð, við nýjar og breytilegar aðstæður, ólíkum þeim, sem fræðin urðu til við.

Breytingar og framþróun eru oft ekki fyrirsjánalegar. Því er ekki hægt að spila allt eftir nótum; oft verður að spila eftir eyra.

Til að hægt sé að taka farsælar ákvarðanir, verður að leiða sérfræðiþekkingu og almenna þekkingu og reynslu – almenna skynsemi –  saman, þegar greina á vanda og finna lausn á honum.

Ég vil leyfa mér, að rifja upp nokkur eigin skrif, skrif leikmannsins, til að varpa betri birtu á málið:

Morgunblaðið júni 2022:

Þar skrifaði ég m.a. þetta:

Verðbólga í Evrópu mældist 7,8% í marz. Hún var svipuð hér, eða 7,2%. Hækkun fasteignaverðs víða um Evrópu hefur líka verið mikil, t.a.m. hækkaði fasteignaverð í Þýzkalandi um 12,2% milli ára, um 14,9% í Austurríki og um 18,7% í Hollandi. Á Íslandi var þessi hækkun 15,7%, þannig, að líka á þessu sviði hefur þróun mála verið svipuð hér og í Evrópu.

Hvað ákvað Seðlabanki Evrópu

Seðlabankastjórar Evrulandanna 25 ákváðu, þrátt fyrir þessa verðþenslu, að halda stýrivöxtum óbreyttum…

Hvað gerði svo Seðlabanki Íslands?

Íslenzka hagkerfið er lítið og einhæft. Í raun eru okkar „framleiðslu- og útflutningsgreinar“ bara fimm…

Andstætt því, sem helztu sérfræðingar Evrópu …  ályktuðu, komst Seðlabankastjóri … að þeirri niðurstöðu, að við þessari verðbólgu- og fasteignaverðsþróun – þeirrar sömu hér og í Evrópu –  yrði að bregðast með þeirri hæstu stýrivaxtahækkun, sem hér hefur orðið frá því í hruninu…“

Vísir dezember 2022:

Þar sagði ég m.a. þetta:

Íslenzka hagkerfið

Íslenzka hagkerfið er lítið og einhæft. Í raun eru okkar „framleiðslu- og útflutningsgreinar“ bara fimm…

Við flytjum því inn mest af daglegum neysluvörum…

Þessi snari þáttur innflutts varnings í okkar lífi, veldur því auðvitað, að verðlag, kostnaður, á innfluttum vörum skiptir miklu máli fyrir okkar afkomu og velferð (fyrir okkar verðbólguþróun).

Verðbólgan og orsakir hennar

Það vita það flestir, leikir og lærðir, að sú verðbólga, sem ríkir hér, stafar mest af þeim truflunum á framleiðslu og flutningum, sem COVID olli, og, af þeim stóraukna tilkostnaði, sem þær leiddu til. Þessi kostnaðarauki magnaðist svo upp með Úkraínustríðinu.

Sú verðbólga, sem við höfum átt við að stríða síðustu misseri, er því mest innflutt verðbólga…

Vaxtastýring bankans…

Frá því í maí í fyrra hefur Seðlabanki hækkað stýrivexti úr 0,75% í 6%. Gífurleg hækkun. Að sögn Seðlabankastjóra er þetta gert til að hemja verðbólgu. Skoðum, hvort eða hvernig það hefur virkað:
Verðbólgan er, sem sagt, langmest innflutt. Hækkun íslenzkra vaxta hefur því engin áhrif á þennan þátt, erlent vöruverð, verkar engan veginn til lækkunar þess, heldur, þveröfugt…

Vísir maí 2023:

Þar segi ég m.a. þetta:

Nú er Ásgeir Jónsson búinn að hækka stýrivexti þrettán sinnum, á tveimur árum.

Nú er Ásgeir Jónsson búinn að hækka stýrivexti þrettán sinnum, á tveimur árum, til að reyna að slökkva verðbólgubálið, en verðbólgan bara eykst… Getur verið, að yfirkeyrðar stýrivaxtahækkanir virki sem olía á eldinn…

Ef launahækkanir hjá brauðgerð leiða til þess, að framleiðslukostnaður brauðsins hækkar um 10%, þá segir Ásgeir Jónsson, að þarna séu launahækkanir að kynda undir verðbólguna…Þegar Ásgeir Jónsson, hins vegar, hækkar vexti, þannig, að brauðgerðarkostnaðurinn hækkar um 10%, þá fullyrðir hann, að verið sé að draga úr verðbólgu…

Ég er reyndar enginn Einstein, en fyrir mér er þessi framgangur og aðferðafræði, þessi hagspeki og peningastefna, frekar í ætt við aðferðafræði fáránleikans…

Hér lýkur þessum tilvitnunum í mín eigin skrif, sem byggðu á minni almennu þekkingu og reynslu, almennri skynsemi, þar sem heildarmynd mála og aðstæðna, orsaka og afleiðinga, var skoðuð, en ekki byggt á þröngri fræðimynd, stöðluðum kenningum, sem voru settar fram fyrir mörgum áratugum, við allt aðrar forsendur og aðstæður, og menn lærðu þá og beita svo nú – virðast ekki kunna neitt annað – eins og um stórasannleik væri að ræða.

Íslenzki Seðlabankinn hækkaði hraðar og meir

Enginn í hinum Vestræna heimi hækkaði stýrivexti hraðar og meir en Ásgeir Jónsson, enda stendur verðbólgan hér í 6,6% (við 9,25% stýrivexti), á sama tíma og verðbólgan er komin niður í 2,5% í Þýzkalandi, 1,2% í Danmörki, 3,4% í Englandi  og 4,7% í Noregi.

Megin ástæða þess, að verðbólgan er komin niður alls staðar annars staðar, er, að matvælaverð á heimsmarkaði hefur lækkað um 10% síðustu tólf mánuði, og svo það, að nýjar leiðir og lausnir í aðdrætti Vestur-Evrópu á orkugjöfum hefur stórlækkað verð þeirra. Til viðbótar við kemur svo sá veigamikli punktur, að seðlabankastjórar annarra landa höfðu vit á, að leiðrétta yfirkeyrða vexti, færa þá niður, þegar þeir áttuðu sig á þeim sannleika, þeirri raunmynd, sem Steglitz dró hér upp.

Þegar menn skilja eftir sig sviðna jörð

Ásgeir Jónsson skilur því miður víða eftir sig sviðna jörð.

Okkar „ágæti“ seðlabankastjóri virðist hins vegar ekkert hafa lært eða skilið, situr kolfastur í gömlum kreddum og einstrengingshætti, og gerir ekki mikið með greiningu og dóm Nóbelverðlaunahafans. Svona svipað og fjármálaráðherra. Þessi íslenzku stórmenni eru auðvitað langt yfir einhverja útlenzka menn, þó Nóbelverðlaunahafar séu, hafin.

Óbreyttir 9,25% stýrivextir 20. marz eru fyrir undirrituðum algjör ósvinna og til þess fallnir að sprengja upp baráttuna við verðbólgu í stað þess að styðja við hana. 0,5-1% lækkun hefði gert fyrirtækjunum auðveldara, að taka á sig nýumsamdar launahækkanir, án þess, að færa þær út í verðlagið, auk þess, sem slík lækkun hefði auðveldað skynsamlegan lokafrágang enn opinna kjarasamninga og tjaslað nokkuð upp á illa laskaðan hlutabréfamarkaðinn.

Ásgeir Jónsson skilur því miður víða eftir sig sviðna jörð.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: