- Advertisement -

Viðurkennið að peningastefna Seðlabankans er á rangri leið

Marinó G. Njálsson:

Að Seðlabankinn hafi hækkað bindiskylduna úr 2% í 3% finnst mér benda til þess, að bankinn sé að undirbúa vaxtalækkun. Hann ætli fyrst að draga úr útlánagetu bankanna og síðan verði næsta skref að lækka vextina.

Efnahagsmál Þegar Már Guðmundsson var seðlabankastjóri, þá barmaði hann sér nokkrum sinnum yfir, að bankinn væri að tapa á vaxtamun. Vextir af gjaldeyrisforða væru svo miklu lægri en þeir sem bankinn þyrfti að greiða af innistæðum í bankanum. Núverandi seðlabankastjóri gengur núna í smiðju Más og barmar sér undan hinu sama.

Á sínum tíma gaf ég Má það ráð, að hann gæti einfaldlega lækkað vexti Seðlabankans og þá myndi hann minnka vaxtamuninn með hverri lækkun (nema náttúrulega að erlendir seðlabankastjórar lækkuðu sína vexti hraðar). Núna vil ég gefa Ásgeiri Jónssyni, seðlabankastjóra, sama ráð. Hann veit þetta alveg, því hann nefnir sjálfur, að bara þegar vextir seðlabankans voru lágir var Seðlabankinn með jákvæðan vaxtamun.

Bankarnir hafa tvær leiðir.

Að Seðlabankinn hafi hækkað bindiskylduna úr 2% í 3% finnst mér benda til þess, að bankinn sé að undirbúa vaxtalækkun. Hann ætli fyrst að draga úr útlánagetu bankanna og síðan verði næsta skref að lækka vextina.

Eitt í viðbót sem gerðist í dag og mér fannst vera fyrirséð, var að Arion banki hækkaði verðtryggða vexti sína um 25 punkta sem nemur 6,5% hækkun vaxtanna. Vegna flótta lántaka í verðtryggð lán til að lækka greiðslubyrði sína, þá eru bankarnir komnir í vandræði með verðtryggingarjöfnuð sinn. Þeir verða nefnilega að halda ákveðnu jafnvægi milli verðtryggðra eigna og skulda. Síðustu mánuði hafa verðtryggðar eignir þeirra aukist mikið og má sjá í reikningum þeirra að verðtryggingarjöfnuðurinn er kominn út fyrir þau mörk, sem þeim er ætlað að halda. Bankarnir hafa tvær leiðir. Önnur er að gefa út og selja skuldabréf til fjárfesta. Hin er að neita viðskiptavinum um verðtryggð lán. Meiri skuldabréfaútgáfa leiðir til hærri vaxta.

Þannig að háir vextir Seðlabankans leiða til þess að vaxtamunur bankans er neikvæður. Þeir hafa leitt til hárra nafnvaxta óverðtryggðra lána, bæði nýju og gömlum með breytilegum vöxtum. Og núna eru þeir að leiða til hækkunar verðtryggðra vaxta. Kaldhæðnin er að það er óhagstæðara í bili að taka verðtryggð lán. Eitt eru háir vextir Seðlabankans hins vegar ekki að leiða til, þ.e. lækkunar verðbólgu, sem er tilgangur vaxtahækkana bankans. Hækkun vaxta Arion banka í dag fer nefnilega beint í hækkun á reiknaðri húsaleigu og skiptir þá engu máli hvort hún er reiknuð með núverandi aðferð eða þeirri aðferð sem taka á upp á næstu mánuðum.

Um leið og stíflan brestur…

Ekki líta má framhjá því, að með háum vöxtum hefur Seðlabankanum tekist að hlaða í verðbólgubálköst. Um leið og stíflan brestur, þá mun fasteignamarkaðurinn fara af stað með mikilli umframeftirspurn og verðhækkunum. Það getur vel verið, að sú hækkun markaðsverðs húsnæðis mælist ekki í beint í vísitölu neysluverðs samkvæmt nýrri aðferð, en töfin verður ekki mikil. Mestu máli skiptir, að húsnæðiskaupendur munu þurfa að greiða hærra verð, hærri vexti og greiðslubyrðin verði jafnóbærileg og hún er núna.

Er ekki kominn tími til, að Seðlabankinn og seðlabankastjóri viðurkenni að peningastefna bankans er á rangri leið? Hún er að breyta verðbólguskoti í langvarandi verðbólgu með enn einu löngu tímabili hárra vaxta.

Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Hún er birt hér með leyfi höfundar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: