- Advertisement -

Hrútskýringar Seðlabankastjóra

Marinó G. Njálsson:

Annað, sem ég vildi gjarnan sjá gerast, er að áhrifafólk standi með almenningi og neytendum. Blaðri ekki bara eitthvað í viðtölum og hátíðarræðum, en svo breytist ekkert.

Ásta Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, spurði Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóra, á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun, út í efni færslu minnar frá því í gær um að kjarasamningar hefðu ómögulega getað valdið hækkun vöruverðs hjá Krónunni. Það tók Ásgeir smá tíma að finna leið til að komast hjá því að svara spurningunni beint, en þegar hann svaraði, þá talaði hann um atriði eins og framleiðni, áhrif kjarasamninga á eftirspurn og að fara þurfi varlega í kröfur um kauphækkanir.

Ekkert af þessu skýrir út ummæli seðlabankastjóra, að verðbólgan sé kjarasamningum að kenna.

Held að hann hafi áttað sig á því, að hann átti ekkert svar við spurningu Ástu Lóu og útreikningum mínum í gær. En í staðinn fyrir að viðurkenna, að hann hafi líklega tekið of djúpt í árinni, þá fór hann út á tún að leita að hrútum og þar með hrútskýringum.

Málið er, að ég var búinn að kafa ofan í reikninga Haga og komast að sömu niðurstöðu.

Það er kominn tími til, að áhrifafólk í þjóðfélaginu vandi málflutning sinn og gaspri ekki bara eitthvað út í loftið í þeirri von, að fólk gleypi skýringar þeirra hráar. Vissulega kemst það oftast upp með það, vegna þess að það er full vinna að leiðrétta rangfærslurnar. Hjá mér er þetta hugsjónastarf, sem gefur engar tekjur og oftar en ekki unnið á kostnað tekjuöflunar.

Ég sagði strax í febrúar, þegar Ásgeir hélt því fyrst fram, að verðbólgan væri kjarasamningum að kenna, og svo í hvert sinn sem hann hefur haldið því fram, að tölur styddu ekki þessa fullyrðingu. Ásgeir sagði á fundinum í morgun, að ekki mætti taka út eitt fyrirtæki. Málið er, að ég var búinn að kafa ofan í reikninga Haga og komast að sömu niðurstöðu. Þessi fyrirtæki eru líklega með 75-80% af dagvörumarkaðinum á Íslandi. Þar sem það er engin raunveruleg samkeppni á þessum markaði, þá er staðan örugglega eins hjá Samkaupum.

Annað, sem ég vildi gjarnan sjá gerast, er að áhrifafólk standi með almenningi og neytendum. Blaðri ekki bara eitthvað í viðtölum og hátíðarræðum, en svo breytist ekkert. Það er almenningur sem heldur uppi atvinnulífinu og þjóðfélaginu, en elítan hirðir hagnaðinn.

Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Hún er birt hér með góðfúslegri heimild Matinós.

Hér er fyrri grein Marinós sem vitnað er til í nýrri greininni.

Festi, móðurfélags Krónunnar, Elko og N1, gaf í dag út afkomutilkynningu og uppgjör fyrri 3. ársfjórðung 2023. Í tilkynningunni má segja að fyrirtækið „afsaki“ sig að hafa „bara“ skilað 1,8 milljarða króna hagnaði á ársfjórðungnum. Segir í tilkynningunni að afkoma samstæðunnar hafi aukist um 16,2% frá sama tímabili á fyrra ári og að niðurstaðan hafi verið þetta „þrátt fyrir krefjandi rekstrarumhverfi „í formi áhrifa verðbólgu á vöruverð og allan rekstrarkostnað“ „.

Ég græt nú krókudílatárum yfir þessu krefjandi rekstrarumhverfi og sérstaklega verðbólgunni. Mig langar að upplýsa fyrirtækið um það, að frá júní og fram í september þá var verðbólga, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, heil 0,72%. Get ég ekki séð að áhrif verðbólgu hafi verið mikil á vöruverð eða rekstrarkostnað á þessu tímabili. Síðan má spyrja: Hve stór hluti verðbólgunnar var því að kenna?

Nú rekstrarumhverfið var svo krefjandi að tekjur samstæðunnar jukust um 6,2% á milli ára og framlegð mældist 23,0% og hækkaði um 2,9 prósentustig sem samsvarar 14,4% hækkun framlegðarinnar á milli ára. Og til að leggja sérstaka áherslu á hve krefjandi rekstrarumhverfið var, þá stendur þetta í afkomutilkynningunni:

„Framlegð í dagvöru eykst um 640 millj. kr. eða 17,7% á milli ára vegna aukinnar veltu í verslunum Krónunnar og N1. Framlegð í orkusölu hækkar um 911 millj. kr. vegna góðrar magnaukningar milli ára og jákvæðari þróunar eldsneytisverðs á fjórðungnum í samanburði við fyrra ár.“

Ég er 100% viss um að þessi jákvæða þróun eldsneytisverðs var ekki neytendum til hagsbóta!

Sé þessu deilt niður á dótturfyrirtækin, þá jókst velta Krónunnar um 27% á milli ára og hagnaður upp á 1,3 milljarða króna samsvaraði um 30% hækkun frá sama tímabili í fyrra. N1 og Elko högnuðust, en ekki eins mikið og árið á undan.

Takið vel eftir þessu. Önnur stærsta matvöruverslunarkeðja landsins jók hagnað sinn um 30% – þrjátíu prósent! Stóð hún undir 72% af hagnaði Festis. Krónan tók 296 milljónir króna meira inn í hagnað á fyrstu níu mánuðunum í ár en á sama tímabili árið 2022 og búast má við, að framlegð fyrirtækisins hafi verið eitthvað umfram þau 23,0% sem Festi náði í heild, enda jókst hún um 17,7%.

En rúsínan í pylsuendanum eru upplýsingar um laun og starfsmannakostnað, en ég hef oft sagt, að fullyrðingar um að kjarasamningar hafi valdið mikilli verðbólgu, haldi ekki vatni. Í árshlutareikningum er þessi liður sagður hafa hækkað um 18,2% á milli ára fyrstu 9 mánuði hvors árs, en jafnframt bent á að stöðugildum hafi fjölgað um 6,5%. Nú veit ég svo sem ekki hve stóran hluta af þessari 18,2% hækkun megi rekja til 6,5% fjölgunar stöðugilda, en gefum okkur til einföldunar að hækkun launa og starfsmannakostnaðar dreifist þokkalega jafnt á alla starfsmenn (sem það gerir ekki, því starfsfólk í matvöruverslunum er yfirleitt á frekar lágum launum). Þá þýðir það að 106,5% starfsmanna standa undir 118,2% launa og starfsmannakostnaðar (100% starfsmanna stóð áður undir 100% launa og starfsmannakostnaðar). Það þýðir að laun og starfsmannakostnaður á hvern starfsmann hafi hækkað um 10,9% (118,2/106,5-1=0,109=10,9%).

Síðan þegar við tökum tillit til þess, að laun og starfsmannakostnaður Festis þessa 9 mánuði 2023 var um 11,3% af veltu Festis, þá voru áhrif kjarasamninganna um 1,23% á heildarveltu, en aðeins hærra hlutfall af heildarútgjöldum eða ca. 1,25%.

Ég myndi vilja sérstaklega, að Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, sé látinn vita af þessu. Kjarasamningarnir, sem fjármálastöðugleika- Ásgeir, leist svo vel á en peningastefnu-Ásgeiri ekki, þeir ollu 10,9% hækkun launa og starfsmannakostnaðar hjá Festi fyrstu 9 mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra og sú hækkun nam um 1,25% heildarkostnaðar.

Þetta er eins kristaltært og getur orðið: Kjarasamningar á síðasta ári höfðu EKKI þau áhrif á vöruverð hjá Krónunni að fyrirtækið hefði verið tilneytt að hækka verð hjá sér eins og það gerði. Það notaði kjarasamningana sem afsökun fyrir meiri hækkunum en þörf var á, eins og sést á aukinni framlegð og auknum hagnaði. Seðlabankastjóri verður að leita eitthvað annað að sökudólgum. Eða kannski að hann skýri út, hvernig 1,25% hækkun heildarkostnaðar, að því virðist, vel rekins fyrirtækis, hefði átt að valda 9,1% hækkun verðs matar og drykkjarvöru frá undirritun kjarasamninga í byrjun desember 2022 til loka 3. ársfjórðungs 2023? Það er a.m.k. ekki því að kenna, að fólk á nánast lægstu launatöxtum samfélagsins fékk launahækkun.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: