- Advertisement -

Kenna láglaunafólki um stöðu sína

Marinó G. Njálsson:

Einhverjir skilja ekki af hverju öryrkjar vinni ekki meira, en neita síðan að ráða þá í vinnu, vegna þess að þeir eru öryrkjar, eins og nýleg kærumál eru til vitnis um.

Ég hef nokkru sinni skrifað um þörf fyrir meira réttlæti í þjóðfélaginu. Og þá er ég að tala um réttlæti fyrir neytendur, láglaunafólk og annað lágtekjufólk og þá sem minna mega sín. Skilning þeirra, sem geta gert það þeir vilja, að ef þeir halda áfram að gera það sem þeir vilja á kostnað annarra, þá mun fólk nota fyrsta tækifæri til að snúa viðskiptum sínum eitthvað annað eða það hefur ekki lengur efni á nauðsynjum (sem er þegar staðan hjá allt of mörgum).

„Sómi, sverð og skjöldur Íslands“ var haft um Jón Sigurðsson frelsishetju Íslendinga, enda var hann ötull baráttumaður fyrir meiri réttindum Íslendinga og sjálfsyfirráðum, þó hvergi sé, mér vitandi, hægt að finna beina tilvísun um að hann vildi sjálfstæði frá Dönum. Hann gat sér gott orðspor með verkum sínum, þó ekki væru allir sáttir í dag við hvernig hann kom fram við heitmey sína sem hann hélt í böndum á Íslandi meðan hann dvaldi í Kaupmannahöfn.

Ekki er öllum það gefið, að vinna sér inn svona lof að vera kallaðir „sómi Íslands, sverð þess og skjöldur“, þó þeir haldi sjálfir á lofti ágæti sínu og brosi örugglega fallega til sín í speglinum á hverjum morgni. Mikið væri gott, ef frambjóðendur til forseta uppfylltu það skilyrði að vera og ætla, sem forseti, að vera sómi Íslands, sverð þess og skjöldur.

Við erum sem betur fer mörg, sem höfum vissar hugmyndir um réttlæti.

Fyrir ári skrifaði ég, að við hefðum fjarlægst mikið markmiðin um réttlátt þjóðfélag og ég held að sú fjarlægð hafi aukist, ef eitthvað er síðustu 12 mánuði. Allar launahækkanir frá desember 2022 voru horfnar áður en fyrsti mánuðu síðasta árs var liðinn og þær sem komu hjá Eflingarfélögum í mars náðu ekki að vinna upp hækkunargleði þeirra sem geta gert það sem þeir vilja þegar þeir vilja. Þá átti fólk eftir að greiða vexti lánanna eða húsaleiguna, sem eru enn að hækka.

Stórir hópar telja að réttlæti felist í frelsi þeirra til að gera það sem þeir vilja vegna þess að þeir geta það. Að mannúð og samkennd sé eitthvað sem eigi helst ekki að nota eða bara í orði á hátíðarstundum. Ansi margir hafa sagt opinberlega, að þeim komi mannúð og samkennd ekkert við. Gengið svo langt, að kenna láglaunafólki um stöðu sína með grægði sinni að bæta ömurleg kjör sín. Einhverjir skilja ekki af hverju öryrkjar vinni ekki meira, en neita síðan að ráða þá í vinnu, vegna þess að þeir eru öryrkjar, eins og nýleg kærumál eru til vitnis um.

Við erum sem betur fer mörg, sem höfum vissar hugmyndir um réttlæti. Viljum setja velferð almennings í forgang, meðan stjórnvöld fagna hagnaði útgerðar, banka og forríkra fjármagnseigenda sem vísbendingu um góðan efnahagslegan árangur. Ekki megi hrófla við fákeppni á neytendamarkaði og ekkert gert til að búa til alvöru samkeppni. Lífeyrissjóðirnir eru síðan eins og ríki í ríkinu og skilja ekki hlutverk sitt í breyttu þjóðfélagi.

Réttlátara þjóðfélag snýst m.a. um, að allir helstu forystumenn í stjórnmálum og vinnumarkaðarins (beggja vegna borðs) vilji öllum stundum að vera sómi Íslands, sverð þess og skjöldur. Að allir séu tilbúnir að leggjast á árarnar til að koma því á þann stað sem við viljum að það sé fyrir komandi kynslóðir. Að fólk búi yfir réttsýni, mannúð og samkennd, þannig að draumur forsætisráðherra fyrir einu ári, um að Ísland sé gott samfélag sem styðjur þá verst stöddu, verði að veruleika. (Höfum svo í huga, að komandi kynslóðir auðfólks eða valdamanna, gæti endað uppi í láglaunastörfum eða sem öryrkjar. Enginn veit sína ævi fyrr en öll er.)

Fyrir einu ári var allt í steik. Verðbólga á uppleið. Vextir á uppleið

Fyrir einu ári var allt í steik. Verðbólga á uppleið. Vextir á uppleið. Óeining á vinnumarkaði. Núna ætti verðbólgan að vera á niðurleið og það lítur út fyrir einingu á vinnumarkaði, en þá hækka vextirnir. Eigi að nást árangur, má enginn skorast undan. Allir verða að taka þátt í hlaupinu mikla að koma í mark sem sómi Íslands, sverð þess og skjöldur. Þetta er eins og á íþróttamótum yngri flokka. Fólk velur sinn hraða, en allir sem ljúka hlaupinu geta hampað sér sem sigurvegari og þar með sómi Íslands, sverð þess og skjöldur. Nú er bara spurninginn hverjir vilja skrá sig til leiks og vilja skuldbinda sig til að ljúka hlaupinu.

Ég gleymdi einu. Ekki er nóg að ljúka hlaupinu einu sinni, heldur þarf að taka þátt oft, í hverjum mánuði ár eftir ár, þar til það verður hluti af menningu þjóðarinnar, að efnahagsleg afkoma og velferð þeirra verst settu er viðmiðið um árangur. Haldi einhverjir atvinnurekendur, að þetta komi þeim ekki við, þá bið ég þá um að horfa til þess hvar börn kennaranna eru, meðan kennararnir eru að mennta börnin þeirra. Hvernig vörurnar komast í hillur stórmarkaða. Hvað þarf að gerast á flugvöllum, svo þeir geti flogið í viðskiptaferðina, skíðaferðina eða sólarlandaferðina. Hugsa um þau störf í nútímanum, sem eru nauðsynleg, en unnin af þeim búa við misst efnahagslegt öryggi og minnsta velferð. Hugsa um hvaða störf það eru sem í raun kynda upp í ofnum nútímaheimila og -fyrirtækja. Hverjir það eru, sem læðast inn með eldhúslampann sinn, svo þjóðfélagið haldist gangandi.

Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: