- Advertisement -

Ákveður Krónan vöruverðið í Bónus?

Marinó G. Njálsson:

Hagnaðurinn jókst um 246% umfram hækkun launakostnaðar og við eigum að trúa því, að hækkun launa hafi haft meiri áhrif á verðbólguna!

Seðlabankinn kemur í nýútgefnum Peningamálum sínum til varnar fyrirtækjum og segir að aukinn hagnaður þeirra sé ekki því um að kenna að verðbólga hafi aukist. Vörnin er hins vegar hálf misheppnuð, því gagnrýnin hefur snúið að heildsölum og smásöluvöruverslunum, en stór hluti varnarinnar fjallar um fyrirtæki sem mælast ekki einu sinni í vísitölu neysluverðs.

Gagnrýninni var beint að því, að hækkun launakostnaðar heildsala og smásöluvöruverslana væri ekki skýring á verðbólgunni, en Seðlabankanum tekst að taka launahækkanir allra fyrirtækja (launakostnaður vegna heimilisgeirans). Samkvæmt þessu ætti veitingarmaður á Hornafirði að geta hækkað verð hjá sér vegna þess að starfsmenn álvera fengu kauphækkun. Loks var gagnrýninni beint að vöruverðshækkunum eftir að síðustu kjarasamningar voru gerðir, þ.e. þau áhrif sem komu fram í mælingu á vísitölu neysluverðs á fyrstu mánuðum þessa árs, en Seðlabankinn hættir eina samanburði sínum, sem hugsanlega gæti staðfest eða hnekkt gagnrýninni, árið 2022.

Ég get svo sem ekkert annað gert, en að vísa í gögn sem Hagstofa tekur saman úr ársskýrslum fyrirtækja. Fyrst er það að nefna, að verðhækkanir fyrirtækja og stofnana báru ábyrgð á yfir 2/3 af hækkun vísitölu neysluverðs frá september 2022 til september í ár. Viðmiðunartímibilið mitt er hins vegar frá árslokum 2020 til ársloka 2021. Ástæðan er að gögn Hagstofu, sem ég skoðaði, ná ekki lengra en til þeirra ára. Á því tímabili báru fyrirtæki og stofnanir ábyrgð á um 55% verðbólgunnar, þar af var hluti heildverslunar (atvinnugreinaflokkur ÍSAT 46) og smásöluverslunar (ÍSAT 47) um 30%. Húsnæðisliðurinn skoraði hæst.

Svo er það náttúrulega brandarinn með samband vöruverðs í Bónus og Krónunni.

Seðlabankinn vill meina að launahækkanir vegi þyngra í hækkun vöruverðs en hagnaður fyrirtækjanna. Þarna í árslok 2021 kemur í ljós, samkvæmt ársreiknum skilað til skattsins, sem sagt rauntölum, að hagnaður fyrirtækja í ÍSAT 46 og 47 jókst um 45.572 milljónir kr. (45,6 ma.kr.) meðan launakostnaður þeirra jókst um 13.180 milljónir kr. (13,2 ma.kr.). Hagnaðurinn jókst um 246% umfram hækkun launakostnaðar og við eigum að trúa því, að hækkun launa hafi haft meiri áhrif á verðbólguna!

Nú verð ég að vísu að bíða í nokkrar vikur í viðbót, þar til nýjar tölur koma frá Hagstofu, en svo vill til að fyrir einhverjum mánuðum, þá var ég búinn að skoða árs- og árshlutareikninga stærstu matvöruverslanakeðjanna og komst að því, að fyrstu mánuðum þessa árs hækkaði hagnaður þeirra allra margfalt á við hækkun launakostnaðar. Seðlabankinn horfir vissulega á þjóðhagsreikninga sem meta hlutina frá ólíku sjónarhorni og byggir á alls konar útreikningi með hjálp hinna ýmsu jafna. Rauntölur ljúga hins vegar sjaldan, sama hvað fræðin segja.

Það finnur það hins vegar hver einasti maður, sem verslar í matinn, að verðstefnan er bara upp á við á öllu sem er hægt að hækka. Einstaka liðir standa í stað, en það er líklega vegna þess að innlendir framleiðendur hafa ekki hækkað hjá sér. Vörumerki sem matvöruverslanakeðjurnar flytja sjálfar inn, vegna þess að þau eiga að vera svo hagkvæm, eru bara ekkert svo hagkvæm lengur.

Svo er það náttúrulega brandarinn með samband vöruverðs í Bónus og Krónunni. Það er alveg stórmerkilegt, að Krónan ákveði verð hjá Bónus. Þannig lítur þetta sjónarspil út fyrir mér. Sýnir að allt tal um sjálfstæða verðlagningu hjá Bónus, byggða á útreikningu á kostnaðarverði í vöruhúsi, er algjört kjaftæði. En líklega er ódýrara fyrir Bónus, að láta Krónuna um stritið, verðmerkja vöruna hjá sér og svo setur Bónus sitt verð krónu lægra. Sparar örugglega helling í starfsmannakostnað að láta samkeppnina sjá um allt. Ég einhvern veginn efast um að þetta teljist samkeppni í anda samkeppnislaga. Samkeppni er þegar tveir aðilar verðleggja hvor um sig vöru á sinni forsendu til að bjóða betri kjör, en ekki að annar ákveði sitt verð og hinn hermi eftir mínus 1 króna.

Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Hún er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: