- Advertisement -

Í núverandi kerfi græða lánveitendur á hagsveiflum og ýta undir þær

Marinó G. Njálsson:

Ég held líka að aldan verði styttri, ef fleiri en lántakar þurfi að stinga sér í gegn um hana.

Hver væri staðan í fasteignalánamálum heimilanna, hefðu tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna orðið ofan á árið 2010?

Þær kröfur voru:

  • 1. Verðtryggð húsnæðislán: Sett verði 4% þak á árlegar verðbætur verðtryggðra húsnæðislána. Þakið lækki síðan í þrepum uns hætt verði að nota verðtryggingu vegna húsnæðislána. Hætt verði að veita verðtryggð lán til einstaklinga vegna húsnæðiskaupa.
  • 2. Óverðtryggð húsnæðislán: Sett verði 5 – 6% þak á óverðtryggða vexti húsnæðislána. Vextir ákvarðist í samningi milli lánveitanda og lántaka, samið verði til 3 til 5 ára í senn, þó mánaðarleg greiðslubyrði lánanna miði við lán til lengri tíma. Vextir geti verið breytilegir samkvæmt nánari ákvæðum samningsins; fljótandi í samræmi við fyrirfram ákveðið viðmið eða fastir. Hámarksvextir verði 6%.

…staðan væri allt önnur…

Ég held ég geti fullyrt að staðan væri allt önnur og jákvæðari fyrir lántaka og ábyrgðinni á efnahagssveiflum og -óstjórn hefði verið skipt á milli lántaka og lánveitenda.

Með hámarksvexti miðaða við 6% og 4% þak á verðbætur, þá þori ég að fullyrða, að útlánastofnanir hefðu hagað útlánum sínum á annan hátt í aukinni verðbólgu og verið virkir þátttakendur í að sporna gegn verðbólgunni. Í núverandi kerfi græða lánveitendur á hagsveiflum og ýta undir þær.

Eru þetta óraunhæfar kröfur? Ja, örfá lönd í heiminum veitir neytendum verðtryggð húsnæðislán og Ísland er eitt landa Evrópu til að gera það, síðast þegar ég vissi. Húsnæðislán með þaki á vexti hafa staðið til boða í Danmörku í tæplega þrjá áratugi og hefur ekki svo ég viti til sett bankakerfið þar í vanda. Einmitt hugsanlega vegna þess að slík lán auka stöðugleika. Stundum þurfa fjármálafyrirtæki að stinga sér í gegn um ölduna með viðskiptavinum sínum, en ekki alltaf fljóta ofan á í lúxusskipum. Ég held líka að aldan verði styttri, ef fleiri en lántakar þurfi að stinga sér í gegn um hana.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: