- Advertisement -

Sveinbjörg leiðir nýtt framboð

„Ég mun bjóða mig fram fyrir nýtt stjórnmálaafl í sveitarstjórnarkosningunum 26. maí nk,“ þannig endar Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir grein sína í Fréttablaðinu í dag.

Sveinbjörg Birna var sem kunnugt er oddviti Framsóknar og flugvallavina í síðustu kosningum og vakti þá mikla athygli vegna andstgöðu sinnar við fyrirhugaða moskubyggingu.

Nú slær hún nýjan tón. Er alfarið á móti borgarlíunni.

Nýtt vaktaplan á Landspítala

„Það er svo ótal margt annað sem má gera til að bæta samgönguvandann. Sem dæmi um vandann er umferðaröngþveitið á Miklubraut, en það er sú leið sem flestir af þeim sex þúsund starfsmönnum Landspítala aka til og frá vinnu. Á borgarstjórnarfundinum sl. þriðjudag lagði ég þess vegna fram tillögu um að Reykjavíkurborg ætti frumkvæði að samtali við Landspítala, stéttarfélög heilbrigðisstarfsfólks og heilbrigðisráðherra í því skyni að kanna hvort breyta megi vaktafyrirkomulagi á Landspítalanum. Með því að færa upphaf og lok dagvakta af mesta háannatíma mætti stytta ferðatíma heilbrigðisstarfsfólks sem og annarra íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Það væri a.m.k. raunhæft skref í rétta átt, en ekki loforð sem aldrei verður staðið við,“ skrifar hún.

Segir kjósendur vilja dugnað

„Kjósendur eru fyrir löngu búnir að átta sig á því að lítið er að marka loforðin fyrir kosningar, hvort sem þau snúast um að tryggja fólki þak yfir höfuðið, niðurfellingu skatta, ókeypis leikskólapláss eða tugmilljarða samgöngubætur. Kjósendur vilja fyrst og fremst fulltrúa sem eru ábyrgðarfullir og duglegir, sýna áræðni og ráðdeild og umfram allt fulltrúa sem eru skynsamir. Það eru þau gildi sem mér finnst mest um verð.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: