- Advertisement -

„Það eina sem dugar er algert bann“

Guðmundur Ingi sagði á Alþingi:

„Við eigum að stefna að því að koma í veg fyrir aðgengi að erlendum spilasíðum í stað þess að nota tilvist þeirra til að réttlæta áframhaldandi rekstur spilakassa.“

„Spilakassar eru hannaðir til að ýta undir spilafíkn,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi þegar hann talaði um happdrætti og einkum um spilakassana.

„Ólíkt happdrættum þá skila þeir niðurstöðu samstundis og hægt er að taka þátt strax aftur. Það ýtir undir vanamyndun og því eru þátttakendur mun líklegri til að þróa með sér fíkn heldur en þátttakendur í happdrættum. Þá er útreiknað vinningshlutfall spilakassa almennt hærra en sambærilegt hlutfall í happdrættum og það getur ýtt undir ranghugmyndir notenda um afleiðingar þátttöku. Spilakassar velta yfir milljarði króna á ári hverju þrátt fyrir tiltölulega fáa notendur. Það gefur til kynna að veltuna megi að mestu leyti rekja til spilafíkla sem eyði verulegum fjármunum í fíkn sína,“ sagði Guðmundur Ingi.

„Það er orðið löngu tímabært að hætta rekstri spilakassa á Íslandi. Það getur ekki réttlætt svo skaðlega starfsemi að ágóðinn renni til góðgerðamála. Það gerir lítið gagn að innleiða svokölluð spilakort. Sú aðferð myndi hvorki leysa fjármögnunarvanda góðgerðafélaga né vinna gegn vanda spilafíkla. Það eina sem dugar er algert bann. Þá er það engin afsökun að vísa til þess að Íslendingar hafi aðgang að fjárhættuspilum í gegnum erlendar vefsíður. Erlendar spilasíður eru vissulega skaðlegar og þörf er á frekari aðgerðum til að koma í veg fyrir aðgengi að þeim á Íslandi. Við getum ekki afsakað eigin sóðaskap með því að benda á háttsemi annarra. Við eigum að stefna að því að koma í veg fyrir aðgengi að erlendum spilasíðum í stað þess að nota tilvist þeirra til að réttlæta áframhaldandi rekstur spilakassa,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: