- Advertisement -

Það er skjalfest að lykilfólk í kerfinu á Íslandi þiggur mútur

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Ef fólk afneitar mútum af einhverri misskilinni þjóðerniskennd (nei, guð, við erum ekki svo slæm, Ísland er ekki Mozambique) þá getur það ekki skilið hvernig íslenskt samfélag virkar. Þegar fólk hættir þessari afneitun og viðurkennir að Íslendingar eru engu betri en aðrir (viðurkennir það sem er augljóst) þá raknar íslensks samfélag upp og augljóst verður hvers vegna stjórnmálafólkið, sem við kjósum til að gæta hagsmuna okkar, og embættismennirnir, sem eru ráðnir til að verja okkar hagsmuni, hegða sér eins og þau séu ekki í vinnu hjá okkur heldur örfáum ógeðslega ríkum fjölskyldum; fjölskyldum sem hafa auðgast af aðgengi að okkar auðlindum og borga fyrir það kúk og kanil.

Sjálfstæðisflokkur, VG, Framsókn, Miðflokkur og meira að segja þingmenn úr öðrum flokkum keppast nú við að sannfæra þjóðina að engir angar Samherja-málsins liggi til Íslands, að málið sé í farvegi réttra aðila (saksóknara og skattrannsóknarstjóra) og að á því sé engin pólitískt hlið, engin ástæða til að meta íslenskar aðstæður upp á nýtt út frá því að komið hefur í ljós að öflugasta fyrirtækið á Íslandi mútar stjórnmálamönnum og er augljóslega vant því, það er hluti af meginstarfsemi þess.

Það kom fram í rannsóknarskýrslu almennings.

Bankarnir mútuðu stjórnmálafólki, embættismönnum og áhrifafólki árin fyrir Hrun. Það kom fram í rannsóknarskýrslu almennings. Það er skjalfest að lykilfólk í kerfinu á Íslandi þiggur mútur. Það kom fram í Panamaskjölunum að íslenskt stjórnmálafólk á og notar reikninga á aflandseyjum. Það kom fram í Samherjaskjölunum að öflugasta fyrirtækið á Íslandi, það sem beitt hefur sér harðast til að hafa áhrif á stefnu samfélagsins, mútar stjórnmálafólki og telur sig svo ósnertanlegt að starfsmenn þess senda upplýsingar um þetta síná milli í tölvuskeytum.

Við höfum því þetta í höndunum: 1. Íslenskt stjórnmálafólk og embættisfólk þiggur mútur. 2. Íslenskt stjórnmálafólk á reikninga í aflöndum til að fela fé. 3. Öflugasta kvótafyrirtækið mútar stjórnmálamönnum. 4. Kvóti á Íslandsmiðum er afhentur örfáum gegn leigu sem er aðeins brotabrot af markaðsverði.

Þau sem leggja þetta saman og fá út að íslenska stjórnmálakerfið gangi ekki fyrir mútum frá hinum auðugu og valdamiklu eru haldinn sjúklegri afneitun og meðvirkni, ættu að stíga út úr umræðunni og leita faglegrar meðferðar og aðhlynningar. Við hin verðum að bregðast við. Það er ekki hægt að byggja upp gott samfélag þegar þeim sem treyst er til þess eru ekki að vinna fyrir almenning heldur eru á launaskrá í földum skúffum hjá þeim sem eru að ræna þetta samfélag að innan.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: