- Advertisement -

„Þjóðarsátt – áhættunnar virði“

Það er svo sannarlega samhljómur hjá aðildarfélögum ASÍ um að fara „sambærilega“ samningaleið og gert var í þjóðarsáttarsamningunum árið 1990.

Vilhjálmur Birgisson.

Vilhjálmur Birgisson skrifaði:

Undanfarnar vikur hafa formenn landssambanda og stærstu félaga innan ASÍ fundað oft og títt og hefur markmið með þessum fundum verið að koma sér saman um leiðir til að fara öll saman í komandi kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins.

En það hefur til þessa verið gríðarlegur samhljómur á meðal aðildarfélaga innan ASÍ um mikilvægi þess að við förum saman sem breið fylking í komandi viðræður, enda verkefnið sem bíður okkar ærið og afar krefjandi. Verðbólga er í 8% og stýrivextir í 9,25% en það er bláköld staðreynd að há verðbólga og háir vextir leika lágtekju- og millitekjufólk afar illa enda er svo sannarlega farið að þrengja illilega að þessum hópum.

Vilhjálmur Birgisson:
Það er einnig hvellskýrt að aðkoma stjórnvalda og sveitarfélaga við gerð slíks langtímasamnings verður að vera umtalsverð og munu stjórnvöld gegna lykilhlutverki varðandi það hvort þetta verður hægt eða ekki.

Flestir muna eftir þjóðarsáttinni sem gerð var árið 1990 þar sem markmiðið í þeim samningum var að ná verðbólgunni hratt niður með verðstöðugleika sem og að ná niður vaxtastiginu sem var á þeim tíma að leika skuldsett heimili og fyrirtæki afar grátt. Þetta tókst eins og frægt er en verðbólgan fór úr 25% í 6% á 12 mánaða tímabili og vextir fjármálakerfisins lækkuðu í kjölfarið umtalsvert.

Það er svo sannarlega samhljómur hjá aðildarfélögum ASÍ um að fara „sambærilega“ samningaleið og gert var í þjóðarsáttarsamningunum árið 1990.

Það skiptir launafólk, neytendur og heimili afar miklu máli að ná niður verðbólgunni og vöxtum fjármálakerfisins hratt og örugglega. Enda er hægt að auka ráðstöfunartekjur launafólks með miklu fleiri þáttum en „bara“ með beinum launahækkunum og gegna stöðugt verðlag og lækkandi vaxtakjör lykilhlutverki hvað það varðar.

Það er morgunljóst að ef hægt á að vera að fara „hálfgerða“ þjóðarsáttarleið mun þurfa m.a að endurreisa tilfærslukerfin þ.e.a.s húsaleigu-, vaxta-,- og barnabótakerfin þannig að þau gegni sínum hlutverkum eins og þau gerðu hér á árum áður.

Það er einnig hvellskýrt að aðkoma stjórnvalda og sveitarfélaga við gerð slíks langtímasamnings verður að vera umtalsverð og munu stjórnvöld gegna lykilhlutverki varðandi það hvort þetta verður hægt eða ekki.

Enda liggur algerlega fyrir…

Það þarf að tryggja að gjaldskrár sem lúta að barnafjölskyldum hækki ekki um meira en 2,5% og einnig munu tryggingafélög, birgjar, verslun og þjónusta þurfa að axla sína ábyrgð í að viðhalda hér verðstöðugleika. Það mun ekki verða liðið að þessir aðilar ætli sér að spila sig stikkfría með því að varpa öllum kostnaðarhækkunum út í verðlagið til þess eins að ná og viðhalda sínum arðsemismarkmiðum.

Ef þetta á að takast þurfa allir að færa „fórnir“ en ljóst er að þær fórnir munu afar fljótt umbreytast í gríðarlegan ávinning fyrir alla ef markmið samninganna nást. Því lækkandi verðbólga, lægra vaxtastig og endurreisn tilfærslukerfanna mun skila miklum kjarabótum fyrir launafólk ef þessi markmið ganga eftir.

Framlag verkalýðshreyfingarinnar í slíkum þjóðarsáttarsamningum ef full samstaða næst yrði að semja með hófstilltum hætti og í því samhengi yrði horft til þess svigrúms sem Seðlabankinn telur að sé til staðar í hagkerfinu. Það yrði framlag verkalýðshreyfingarinnar til þessara kjaraviðræðna en trúið mér ef stjórnvöld, sveitarfélög og verslun og þjónusta og reyndar allir ætla ekki að taka þátt og axla sína ábyrgð verður ekkert af þessari „þjóðarsátt.“

Enda liggur algerlega fyrir að verkalýðshreyfingin mun aldrei ein vinna bug á þessari verðbólgu né ná niður vöxtum og því verður ekkert af þjóðarsáttarsamningum ef ekki allir taka þátt og þar spila stjórnvöld, sveitarfélög og verslun og þjónusta lykilhlutverk ásamt verkalýðshreyfingunni og Samtökum atvinnulífsins.

Eitt er allavega ljóst að ef það næst…

Ég vil vara alla þá aðila sem hafa í hyggju að hækka hjá sér vörur, gjaldskrár og önnur gjöld umtalsvert um áramótin að gera það alls ekki því ef það gerist mun þessari tilraun að mínu mati verða sjálfhætt. Enda byggist þess aðferð og nálgun á nýrri þjóðarsátt á því að allir taki þátt og enginn víki sér undan þeirri ábyrgð!!!

Eitt af megin verkefnum stéttarfélaga er að verja og auka lífskjör sinna félagsmanna og það verkefni hefur verkalýðshreyfingin ætíð farið í af ábyrgð og festu. Eitt er allavega ljóst að ef það næst endanleg samstaða um að fara svona leið þá mun verkalýðshreyfingin eðlilega og af fenginni reynslu vera með hvellskýr forsenduákvæði í slíkum þjóðarsáttarsamningi eins og gert var í þjóðarsáttarsamningunum árið 1990. Enda ætlar verkalýðshreyfingin alls ekki að sitja ein uppi með ábyrgðina við að fara leið sem mun stuðla að markmiðum að lækkun vaxta og verðbólgu með stöðugu verðlagi ef aðrir ætla síðan að víkja sér undan ábyrgð og taka ekki þátt.

Ég er sannfærður um að það er ákall frá launafólki, neytendum og heimilum að farin verði leið þjóðarsáttar þar sem hin skýru markmið um að ná tökum á verðbólgunni, lægri vöxtum og lagfæringu á tilfærslukerfunum nást fram. Enda liggur fyrir að launafólk, neytendur og heimili eru að kikna undan stórauknum hækkunum á öllum útgjaldaliðum sínum.

Það er einnig mat mitt að þessi þjóðarsáttarleið sé svo sannarlega áhættunnar virði enda ávinningurinn miklu meiri en að fara hana ekki.

Stóra spurningin er, munu stjórnvöld, sveitarfélög, verslun og þjónusta vera tilbúin að fara þessa leið þar sem allir leggja sitt af mörkum til að þessum markmiðum verði náð og verður fróðlegt að sjá og heyra hvort svo sé. Boltinn er hjá þessum aðilum!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: