- Advertisement -

Þjófarnir hafa breytt Íslandi í þjófabæli

Það er verðugt viðfangsefni, hvernig endurheimtum við eigur almennings af þjófunum?

Gunnar Smári skrifar:

Ég held að formaður Framsóknarflokksins sé vanhæfur til að fjalla um þessi mál. Sem kunnugt er gaf Ólafur Ólafsson, aðaleigandi Samskipa, þeim flokki húseign og skar flokkinn þar með úr þeirri snöru skulda sem hann hafði komið sér í.

Sjálfstæðisflokkurinn er reyndar vanhæfur til að fjalla um þetta mál einnig vegna tengsla flokksins og ráðherra hans við Samherja, aðaleiganda Eimskips. Þessi tengsl sjást þessa dagana í taumlausum vörnum þingmanna og áhrifamanna flokksins fyrir Samherja.

Það mætti hins vegar velta fyrir þjóðaröryggi í samhengi við eigendur skipafélaganna. Annars vegar eru við með aðalhöfund blekkinganna í tengslum við bankasöluna, þegar staurblankir menn komust yfir banka út á flokksskírteini í réttum flokki (já, Framsókn og Sjálfstæðisflokki). Sá varð síðan einn af höfundum Kaupthinking, hugsanagang braskara sem leiddi óheyrilegar hörmungar yfir tug þúsund heimila. Hinn er líka einn af höfundum Hrunsins, stjórnarformaður fjársvikabankans Glitnis, og auk þess aðalleikari í mesta þjófnaði Íslandssögunnar þegar auðlindir almennings voru færðar örfáum, 8-12 fjölskyldum. Hann er nú aðalleikarinn í stærsta alþjóðlega hneykslismáli Íslandssögunnar, Samherjamálinu. Það eina sem jafnast á við það að stærð og ógeði er alþjóðlega hneykslismál hins, Kaupþingsmálið.

Þessi staða lýsir vel vandanum varðandi þjóðaröryggi Íslendinga. Andstæðingarnir eru ekki Rússar eða Kínverjar, hryðjuverkamenn eða tölvuhakkarar, heldur þjófarnir sem hafa breytt Íslandi í þjófabæli þar sem þjófarnir eiga allt en almenningur ekkert.

Þjófarnir eiga m.a. annars manninn á myndinni sem gengur erinda þjófanna í ríkisstjórn og á Alþingi, lætur eins og hann sé að tala fyrir hagsmunum almennings en gerir það aldrei. Alþjóðleg skipaskrá er eitthvað sem yfirþjófarnir Ólafur Ólafsson og Þorsteinn Már Baldursson vilja. Þess vegna er tillagan lögð fram og samþykkt í ríkisstjórn.

Ef málið snerist um þjóðaröryggi værum við að ræða um hvernig við getum náð skipafélögunum úr höndum þeirra sem stálu eignum samvinnuhreyfingarinnar og þeim sem stálu sjávarauðlindum almennings. Það er verðugt viðfangsefni, hvernig endurheimtum við eigur almennings af þjófunum?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: