- Advertisement -

Þriðjungur fólks hefur ekki efni á geðheilbrigðisþjónustu

Í dag er algengt að einn tími kosti á bilinu 15-18 þúsund.

„Þetta er ekki gott mál. Ég mun aftur leggja fram frumvarp mitt og þingmanna úr öllum flokkum í haust (með aðeins breyttu sniði) um að almennir klínískir meðferðaraðilar falli undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands og þjónustan verði þannig veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta,“ skrifar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar.

„Vaxandi fjöldi fólks greinist með geðraskanir eða önnur andleg veikindi en aðgengi að úrræðum og þjónustu fyrir þennan hóp er því miður takmarkað og kostnaðurinn oft töluverður. Hvað þá þegar að deildum sem veita opinbera þjónustu er í ofanálag að hluta til lokað eins. Mikilvægt er að tryggja að þeir sem eru með virk einkenni fái lausn á sínum vanda sem fyrst til að koma í veg fyrir vítahring lyfja, þunglyndis og óvirkni. Vítahringur sem getur haft alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir þá sem þurfa á hjálp að halda og samfélagið sjálft. Í vor þegar ég lagði fram frumvarpið í fyrsta sinn sögðu fagaðilar á Landspítalanum að breytingin gæti leitt af sér minni þrýsting á geðdeild, þannig gæti skapast aukið svigrúm til að takast á við alvarlegustu tilfellin þar, en að einstaklingar gætu leitað til klínískra meðferðaraðila í auknum mæli sem fyrsta skref, taki ríkið þátt í kostnaði.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu telja um 33% fólks sig ekki hafa efni á geðheilbrigðisþjónustu. Það er staðreynd. Þetta á sérstaklega við um ungt og tekjulágt fólk. Í dag er algengt að einn tími kosti á bilinu 15-18 þúsund. Ég er handviss um að með aukinni áherslu á að auðvelda fólki að leita sér hjálpar og að halda fólki í virkni muni þjóðhagslegur ávinningur þess skila sér margfalt til baka.

Ég vona innilega að okkur takist að afgreiða þetta brýna mál á næsta þingi í þverpólitískri sátt og samstöðu. Það þarf bara pólitískan vilja og þor til þess að setja málið á dagskrá í haust.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: