- Advertisement -

URÐUNARSTAÐUR ÖSKRA?

Segiði svo auglýsingastofunni að spyrja næst einhvern Íslending hvort þetta sé góð hugmynd.

Guðmundur Andri Thorsson alþingismaður skrifaði á Facebook:

Hugmyndin um Ísland sem urðunarstað öskra er soldið góð í fljótu bragði en verður eiginlega ansi vond þegar maður sér útfærsluna. Þetta gerist þegar fengin er til verka auglýsingastofa með lítil eða mjög lausbundin tengsl við Ísland, – landið er þar en ekki hér í vitund þess. Útkoman er næstum því eins og afurð heimsvaldastefnunnar. Hugmyndin snýst um að hægt sé að dömpa hér öllu ergelsi, eins og heimsveldin urða kjarnorkuúrganginn sinn á eyjum þar sem býr valdalaust fólk – þú öskrar og það kemur svo út um gulan – gulan! – risahátalara einhvers staðar í óbyggðunum hér. Sá sem hefur snefil af tilfinningu fyrir íslenskri náttúru, óbyggðunum, veit að áhrifamáttur þeirra felst ekki síst í þögninni. Hver sá sem vinnur með það að selja ferðir til Íslands hlýtur að byrja á því að vinna með þetta: þögn öræfanna – hina heilögu þögn öræfanna sem umlykur stórborgarbúann og afvopnar hann, strýkur honum ásamt golunni á vanga og knýr hann til að leita inn á við og horfast í augu við innri mann og allt sitt bauk í lífinu fram að því. Í þessu felst vitrunin sem býður allra þeirra sem halda á íslenska hálendið, og ganga á vit við einmanalega tign þess. Maður er kannski á gangi á Laugaveginum. Maður er einn með sjálfum sér og öllu því sem maður hefur iðjað. Maður horfir á strá. Maður sér fugl. Maður finnur fyrir líkamanum og maður er í þann veginn að komast að mikilvægustu ákvörðun lífsins eftir langa og djúpa umþenkingu þegar skyndilega berst garg úr risastórum gulum hátalara frá örvilnuðum unglingi í Maine í Bandaríkjunum sem er að verða vitlaus á mömmu sinni. Í guðanna bænum, kæra Ferðamálastofa, ekki gera þetta. Segiði svo auglýsingastofunni að spyrja næst einhvern Íslending hvort þetta sé góð hugmynd.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: