- Advertisement -

Vanvirðandi hegðun í garð kvenna

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, ákvað að víkja sem formaður stjórnskipunar – og eftirlitsnefndar Alþingis. Það gerði hún til að „mót­mæla á­kveðnu at­hæfi sem beinist gegn hennar per­sónu,“ og sakaði meirihluta nefndarinnar um kúgun og þöggun. Þetta þykir mér mjög miður enda Þórhildur Sunna öflug þingkona sem ég hef starfað mikið með í Evrópuráðsþinginu. Halldóra Mogensen þingkona Pírata sagði í ræðu sinni vegna ákvörðunar Þórhildar Sunnu að hún hefði sjálf upplifað vanvirðandi hegðun sem hún spyr sig hvort stafi af því hún sé kona.

Þannig skrifaði Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingkona Vinstri grænna.

„Sem femínisti á Alþingi segi ég að svona ávirðingar er ekki hægt að taka létt og þær verður að skoða ofan í kjölinn. Eftir því kallaði ég í dag,“ skrifaði hún.

„Við þingmenn höfum öll skrifað undir siðareglur þingmanna þar sem 5. og 8. grein þeirra kveða á um að þingmenn skuli ekki beita einelti eða vanvirðandi hegðun og framkomu við aðra þingmenn, starfsmenn þingsins eða gesti þingnefnda.

Kynbundið ofbeldi, kynferðislega áreitni, einelti og vanvirðandi hegðun í garð kvenna.

Að tvær þingkonur flytji ræður í þingsal um vanvirðandi hegðun í sinn garð er grafalvarlegt að mínu mati.

Þingkonum fækkaði um 10% í síðustu þingkosningum og á kjörtímabilinu hafa tvær skýrslur verið unnar um kynbundið ofbeldi, kynferðislega áreitni, einelti og vanvirðandi hegðun í garð kvenna.

Önnur þeirra, skýrsla Evrópuráðsþingsins og Alþjóðaþingmannasambandsins, sýndi að óhugnanlega hátt hlutfall kvenna sem starfa í stjórnmálum eða við þau, verða fyrir vanvirðandi hegðun í sinn garð sem þær tengja beint við kyn sitt.

Hin, skýrsla Félagsvísindastofnunar HÍ frá 19. maí sl. um starfsumhverfi og vinnustaðamenningu Alþingis, sýndi að kynbundin áreitni mældist mest meðal þingmanna, eða 31,8%, og höfðu hlutfallslega fleiri konur (25%) en karlar (10,4%) orðið fyrir kynbundinni áreitni. Skýrslan sýndi líka að 35,7% þingmanna greindu frá því að hafa orðið fyrir einelti í starfi eða í tengslum við starfið. Þetta sýnir að starfsumhverfi þingmanna eða fólks í stjórnmálum er ekki alltaf dans á rósum en við verðum að breyta því og gera starfsumhverfi þjóðkjörinna fulltrúa betra og heilbrigðara.

Viðbrögð Alþingis við því þegar þingkonur lýsa athæfi gegn þeim á þann veg sem þær gerðu í dag, skipta því öllu máli.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: