- Advertisement -

„Var kannski löglegt, en algjörlega siðlaust“

Marinó G. Njálsson skrifaði stutta útgáfu af efirmálum hrunsins:

Marinó G. Njálsson.

1. Eitthvað í kringum 10 þúsund heimili misstu húsnæðið sitt á árunum eftir gjaldmiðils- og bankahrun. Það var um 15% heimila með húsnæðisskuldir. Að fjöldinn hafi verið svona mikill skrifast á úrræðaleysi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem lúffaði sífellt fyrir fjármálafyrirtækjunum.

2. Steingrímur J. Sigfússon upplýsti á Alþingi vorið 2011, að endurreistir bankar hefðu samþykkt að láta afslætti af lánasöfnum renna til lántaka og í hærra hlutfalli til einstaklinga en umfang lána þeirra sagði til um. Það gerðist ekki.

Þú gætir haft áhuga á þessum

3. Nýju bankarnir fengu 24-49% afslátt af lánasöfnum einstaklinga frá fyrri birtingarmyndum sínum. Misjafnt eftir tegund og eðli lánanna.

4. Þrátt fyrir samkomulag við stjórnvöld (sbr. lið 2) gengu bankarnir mjög hart fram í innheimtu lána, beittu mörgum ósiðlegum aðferðum (og líklega ólöglegum líka), sviku tilboð sem þeir sjálfir lögðu fram, hirtu eignir af fólki á nauðungarsölum fyrir slikk (langt undir markaðsverði) og héldu áfram að innheimta eftirstöðvar og snjallasta bragð þeirra var að draga fólk á asnaeyrunum árum saman svo vextir og dráttarvextir söfnuðust á skuldir sem þegar voru uppsprengdar í bókum þeirra. Og hér er bara fátt eitt nefnt.

5. Niðurstaðan varð yfir 700 ma.kr. hagnaður bankanna á fáum árum, gjaldþrot fjölmargra heimila, sundrun fjölskyldna og landflótti margra. Að ógleymdu heilsutjóni og ótímabæru fráfalli fólks.

6. Meðvirk stjórnvöld dönsuðu síðan með og gripu ekki inn í, þó fjármálafyrirtækin brytu gróflega gegn þeim lögum sem sérstaklega höfðu verið sett til að jafnræðis gætti í samskiptum kröfuhafa og lántaka (nr. 107/2009).

Ég efast ekki eitt augnablik um að bankarnir hafi talið sig vera í fullum rétti og rosalega sanngjarna. Þeir hins vegar gerðu samkomulag við stjórnvöld (sbr. lið 2) og sviku það samkomulag gróflega. Þeir tóku við veglegum afslætti frá hrunbönkunum og höfðu undirgengist, sem hluta af samningum um endurreisn bankanna, að skila þessum afslætti til lántaka, en gerðu það ekki. Það var kannski löglegt, en algjörlega siðlaust.

Vil taka fram, að mínar skuldir voru ekki nema að mjög litlu leyti við hrunbankana og hefði ég því nánast ekkert hagnast af betra siðferði nýju bankanna.

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós.

(Fyrir vakthafandi teljara, þá kemur Bjarni Ben hvergi við sögu í þessari færslu).


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: