- Advertisement -

Varað við grænþvotti

Umfjöllun um notkun erfðabreytts fóðurs fyrir húsdýr er mögulega farin að hafa áhrif og hafa einhverjir hætt að nota erfðabreytt fóður í landbúnaði. Hafa sumir þeirra sem hafa gert það látið útbúa sérstakt merki því til stuðnings. Aðstaða dýranna er þó ekki nógu góð á sumum stöðum.

Á vefnum Nature.is er vakin athygli á því að þótt hænur sé ekki lengur fóðraðar á erfðabreyttu fóðri sé aðbúnaður dýranna alls ekki nógu góður. Segir að sumir framleiðendur séu nú að ,,grænþvo“ framleiðslu sína með því að halda því á lofti að dýrin fái nú ekki lengur erfðabreytt fóður en á sama tíma séu skilyrði hænsnanna til skammar.

Heldur Náttúran því fram að fyrirtækið Stjörnuegg haldi t.d framleiðsluhænum sínum í búrum, fjórum saman alla ævi, í myrkvuðum skemmum, þar sem hver og ein hæna hefur svæði sem samsvarar A4 blaði (21 x 29,7 sm) en þessu búr hafa fyrir löngu verið bönnuð innan ríkja Evrópusambandsins. Af þessum sökum sé því fullyrðingin: 100% hrein náttúruafurð beint frá bónda, auðvitað marklaus yfirlýsing.

Gagnrýna tillögur hjá ráðuneyti

Þú gætir haft áhuga á þessum

Velbú, samtök um velferð búfjár, gera reyndar alvarlegar athugasemdir við ákvæði í reglugerð um aðbúnað alifugla sem nú eru í vinnslu hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Lúta athugasemdirnar að ákvæðum um þéttleika alifugla til kjötframleiðslu og segja samtökin að um hreina afturför sé að ræða frá núgildandi reglugerð auk þess sem ný viðmið gangi þvert á markmið nýrra laga um velferð dýra sem tóku gildi 1.1.2014. Segja samtökin: ,,Í 30. grein reglugerðarinnar er snýr að þéttleika kjúklinga er mælt með að hámarksþéttleiki fugla sé aukinn upp í  33kg/m2 og eru einnig gefnar undantekningar upp í 42 kg/m2. Við teljum að þetta sé of mikill þéttleiki sé tillit tekið til velferðar dýranna. Þá gengur þessi reglugerð í berhöggi við tilgang laganna sem eiga að stuðla að bættri velferð dýranna þar sem þéttleiki er aukinn frá núgildandi reglugerð um aðbúnað alifugla frá árinu 1995 en þar er miðað við hámark 19 fugla á fermetra eða 32 kg/m2. Við leggjum til að hámarksþéttleiki alifugla verði lækkaður niður í 25 kg/m2. Við teljum það eðlilega kröfu þar sem ótvíræðar rannsóknir hafa sýnt fram á að þéttleiki yfir 25 kg/m2 rýri mjög velferð fuglanna eins og fram kemur í skýrslu Evrópuráðsins sem var unnin af vísindanefnd um heilsu og velferð dýra (,,Scientific Committee on Animal Health and Animal Welfare“) frá árinu 2000….Við gerum okkur grein fyrir að hagsmunaaðilar í alifuglarækt vilja hafa þéttleikann sem mestan til að geta ræktað sem flesta fugla í húsum sínum, en einnig er þeirra sjónarmið oft að fuglarnir geti hreyft sig sem minnst til að þeir stækki meira með minna fóðri. Því er algjörlega óásættanlegt að í reglugerð sem á að tryggja velferð alifugla séu ákvæði sem eru svo augljóslega eingöngu í þágu hagsmunaaðila og gengur þvert á velferð dýranna.

Sjá nánar á undirskriftarsíðu samtakanna Velbú.

Vefur Velbú.

Sjá umfjöllun á síðu Nature.is

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: