- Advertisement -

Verkfræðingur hæðist að Framsókn

Hallgrímur Axelsson verkfræðingur skrifar skondna grein og merkilega í Fréttablaðið í dag. Þar hæðist hann að Framsóknarráðherrunum, með formanninn sinn í stafni, fyrir vilja þeirra til að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni.

Greinin er annars svona:

„Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra vill taka húsnæðisliðinn úr vísitölu neysluverðs. Vísitala neysluverðs er mælieining, skilgreind til að meta breytingar á útgjöldum Íslendinga að meðaltali.

 Nú er það svo að mönnum lærðist snemma að ekki mætti krukka í staðlaðar mælieiningar, því þá var hægt að svindla á fólki. Einokunarkaupmenn gátu svindlað við vigtun á möðkuðu mjöli, með því að sverfa hluta þyngdarinnar af reislublóðinu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Menn smíðuðu sextant til að mæla sólarhæð í gráðum. Hringurinn er 360 gráður og hver gráða 60 mínútur. Vegalengd á sjó var skilgreind á þann veg að ef sólarhæð á hádegi minnkaði um eina mínútu á einum sólarhring, þá var staðsetningin einni sjómílu sunnar en degi fyrr.

Þjóðverjar voru og eru nákvæmir og þar áttu bakarar að hafa brauðhleifinn af staðlaðri stærð. Þess vegna voru smiðir fengnir til að smíða úr tré staðalbrauð svo kaupendur gætu borið brauð bakarans saman við. Í hverjum bæ þurfti eitt staðalbrauð svo margir smiðir tóku að sér smíðina, en þar með var hætta á að einhver trébrauðanna væru ekki af réttri stærð. Þaðan kemur máltækið að hengja bakara fyrir smið.

 Vegalengd var og er mæld á ýmsan veg annan en í sjómílum, samanber vísuna sem skilgreinir fjarlægðina frá Þorlákshöfn vestur í Selvog.

Frá Þorlákshöfn og út í vog

er svo mældur vegur

átján þúsund áratog

 áttatíu og fjegur.

Í París geymdu menn sem dýrgrip hinn eina og sanna einn metra gerðan úr eðalviði. Ef átti að framleiða tommustokk sem bæði sýnir tommur og sentimetra, þurfti konungsleyfi til að staðfesta lengdina með samanburði. Síðar hefur skilgreining á einum metra verið gerð vísindalegri.

Ef við brjótum regluna og lengjum metrann um 10%, mundi ekki allt verða betra? Ökuleiðin milli Reykjavíkur til Akureyrar er fyrir þá breytingu 387 km en mundi styttast í um 350 km. Augljóst hagræði? Ég held að Sigurður Ingi verði að finna raunhæfari leið til að sigrast á verðbólgudraugnum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: