Fyrir mörgum árum síðan týndust þrír menn sem voru á vélsleðum. Ég var sendur ásamt ljósmyndara til að afla frétta af leitinni. Við vissum ekki frekar en nokkur annar hvert væri best að fara. Við ákváðum að byrja á Þingvöllum.
Það hafði snjóað duglega. Þegar við nálgumst Þingvelli sjáum við nokkra bíla og þar á meðal löggubíl. Við flýttum okkur sem mest og best við máttum. Þegar við komum að bílunum blasti við okkur allt annað en vélsleðamennirnir.
Vigdís Finnbogadóttir forseti var þar á ferð með að mig minnir þýska háskólastúdenta og var að segja þeim sögu Þingvalla. Svo vel hitt á að þegar við komum var Vigdís að ljúka frásögn sinni.
Þegar mér fannst ófrekt gekk ég til forsetans og spurði hvað hún væri að gera og með hvaða fólki hún væri. Auðvitað svaraði hún mér af kurteisi og vinarþeli. Næst stakk hún handlegg sínum undir arminn mér og þannig gengum við saman dágóðan spöl.
Vigdís spurði hvert okkar erindi væri og þegar ég sagði henni frá mönnunum sem nú væri leitað herti hún ósjálfrátt takið á arminum og bað þeirra alls þess besta. Allt fór það vel að lokum.
Daginn eftir birtir DV mynd af mér og Vigdísi á forsíðu. Ég man að ég varð bálreiður. Vildi ekki vera á forsíðu blaðsins. Það vissu mínir yfirboðarar og sögðu mér því ekki frá myndbirtingunni. Í dag er myndin mér kær.
Áratugum síðar þegar sjónvarpsstöðin Hringbraut var með starfsemi á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi. Klukkan var rúmlega tólf. Ég gekk fram á torgið og sé þar Vigdísi. Ég gekk til hennar og rétti fram hæri höndina og sagði: Sæl Vigdís, ég heiti Sigurjón Magnus… Sigurjón minn, heldur þú að ég viti ekki hver þú ert. Ég sagði þá að mamma hefði kennt mér að heilsa og kynna mig með nafni.
Við Vigdís höfðum ekki talað lengi saman þar til ég spyr hvort hún vilji ekki koma með mér og heimsækja fólkið sem vann á Hringbraut. Það var auðsótt.
Ég gleymi sennilega aldrei stundinni þegar ég opna eldhúsdyrnar og segi, ég er með gest sem vill hitta ykkur. Og inn gekk Vigdís Finnbogadóttir. Fólkinu dauðbrá. Úr svip hvers einasta mátti lesa aðdáun. Ekki síst hjá ungu konunum sem þar voru.
Það er sama hvar Vigdís er. Fólk sýnir henni eðlilega mikla virðingu.
-sme