- Advertisement -

Vilja takmarka vald forstjórans

- sex prófessorar, við Landspítala og læknadeild Háskóla Íslands, segja vaxandi óánægju innan Landspítalans og leggja til breytingar þess vegna.

„…undanförnum árum hefur borið á vaxandi óánægju meðal starfsfólks og ágreiningi milli fagstétta og yfirstjórnar Landspítalans.“

„Með skipan stjórnar yfir Landspítala verður að vissu leyti dregið úr völdum forstjóra,“ segir meðal annars í langri grein sem sex prófessorar, við Landspítala og læknadeild Háskóla Íslands, skrifa í Morgunblaðið í dag.

Sexmenningarnir segja að hlutverk forstjórans, verði farið að þeirra tillögum, yrði skerpt og starfsskilyrði bætt, með þátttöku öflugrar stjórnar. Öflug stjórn gæti gegnt mikilvægu hlutverki við að skapa traust milli stjórnenda og starfsfólks annars vegar og gagnvart Alþingi og ríkisstjórn hins vegar.

Þörf á meiri sátt

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sett er út á langa og neikvæða umræðu um slæma stöðu Landspítalans. Og annað, það er að fagfólk innan sjúkrahússins upplifir sig langt frá stjórnendum og jafnvel forstöðumenn fræðigreina hafa litla aðkomu að stefnumótandi ákvarðanatöku. „Því teljum við ljóst að núverandi stjórnkerfi Landspítala hafi ekki reynst vel og að brýnna úrbóta sé þörf. Vandinn er ekki bundinn við persónur heldur er hann kerfislægur og liggur í því hvernig kerfið er uppbyggt í kringum óskorað vald forstjórans. Þá er viðvarandi neikvæð umræða um Landspítalann alvarlegt vandamál sem skaðar ímynd hans, skapar óöryggi meðal landsmanna og hefur neikvæð áhrif á nýliðun lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta. Nú þegar stendur mannafli í lykilsérgreinum mjög tæpt og gæti stefnt í óefni. Því er nauðsynlegt að grípa mjög fljótlega til aðgerða sem eru trúverðugar til að bæta starfsanda og koma á stjórnkerfi sem stuðlar að meiri sátt innan spítalans.“

Vaxandi óánægja

„Við leggjum til að æðsta vald innan Landspítala verði í höndum fjölskipaðrar stjórnar með sterkri að- komu fagstéttanna,“ skrifa sexmenningarnir. „Stjórnin hafi eftirfarandi þrjú hlutverk: (a) að ráða forstjóra, (b) að hafa eftirlit með störfum forstjóra og (c) að móta heildarstefnu fyrir stofnunina. Tillaga þessi er í anda góðra stjórnarhátta í rekstri fyrirtækja og stofnana, þar sem áhersla er lögð á aðgreiningu á stefnumótunarvaldi og framkvæmdavaldi.“

Af lestri greinarinnar er ljóst, sé mat höfunda rétt, að á; „…undanförnum árum hefur borið á vaxandi óánægju meðal starfsfólks og ágreiningi milli fagstétta og yfirstjórnar Landspítalans.“

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: