- Advertisement -

Vill Bjarni draga tennurnar úr launafólki?

„Við sjálfstæðismenn höfum lagt áherslu á að verja viðkvæma hópa fyrir verðbólgunni og samhliða bent á mikilvægi þess að efla tengsl við hinn almenna launamann með því að virkja rauverulegt félagafrelsi.“

Bjarni Benediktsson.

Bjarni Benediktsson efnahagsráðherra skrifar með lengri sjálfshólsgreinum í seinni tíð, á Vísi í gær. Það gerir hann meðan hann ræður ekki neitt við neitt við stjórn efnahagsmála. Fólk og fyrirtæki berjast gegn þeirri óáran sem hér ríkir. Margir bugast. Á sama tíma skrifar Bjarni greinina. Virðist búa á annarri plánetu.

Hér á eftir fer einn kafli úr sjálfshólinu. Þar opnar Bjarni sig um hversu mikið hann langar að koma böndum á félög launþega. Vill stjórna þeim eftir eigin geðþótta. Launafólk á eftir að berjast gegn þeim aðförum sem Bjarni boðar. Hann vill rífa tennurnar úr samtökum launafólks. Víst er að enga fyrirstöðu er að finna í ríkisstjórninni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hjá honum sjálfum er flest í kalda koli.

Kíkjum á skrif efnahagsráðherra Íslands, Bjarna Benediktssonar:

„Við Íslendingar þurfum að horfast í augu við algild lögmál um að sígandi lukka sé best og það eyðist sem af er tekið. Við þurfum að mynda svigrúm fyrir launahækkanir til framtíðar með aukinni verðmætasköpun. Samstöðu þarf um að hækka laun ekki umfram framleiðniaukningu, enda er það ein forsenda þess að halda verðbólguvæntingum niðri og styrkja forsendur stöðugleika. Sérstakt áhyggjuefni er að dregið hefur úr framleiðnivexti hér á landi að undanförnu,“ skrifar ráðherrann.

„Um þessar mundir virðist því miður langt frá því að vera samstaða um áherslur í kjaramálum til næstu ára. Þetta hefur eitt og sér afar slæm áhrif á verðbólguvæntingar til lengri tíma.“ skrifar Bjarni og finnur þar með aðra söludólga. Fríar sjálfan sig.

„Það er augljóslega ekki til farsældar fallið að verkalýðshreyfingin sé í stöðugum innbyrðis átökum, engin samstaða um forystu heildarsamtaka, né yfir höfuð um að þau gegni mikilvægu hlutverki. Í þeirri kjaralotu sem nú hefur staðið yfir hefur eingöngu verið samið til skamms tíma og lítill samhljómur í kröfugerð. Gripið hefur verið til verkfallsaðgerða og lagst gegn atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Launahækkanir hafa heilt yfir verið hærri en hægt er að réttlæta með hliðsjón af framleiðnivexti.“

Auðvitað er það verra fyrir Bjarna að loks sé sjálfstæður vilji hér og þar meðal launafólks. Við það verður hann bara að búa. Eða hvað?

Svo kemur hinn harði stálhnefi íhaldsins:

„Við sjálfstæðismenn höfum lagt áherslu á að verja viðkvæma hópa fyrir verðbólgunni og samhliða bent á mikilvægi þess að efla tengsl við hinn almenna launamann með því að virkja rauverulegt félagafrelsi. Fyrir þinginu liggur frumvarp þess efnis. Að auki er nauðsynlegt að styrkja embætti ríkissáttasemjara. Sterk umgjörð og góður farvegur fyrir kjaradeilur dugar þó ekki til ef samstaðan um meginmarkmið er engin.“

Þarna sést hver viljinn er. Löngun, Bjarna virðist vera sú að draga vígtennurnar úr launafólki sem og allar aðrar. Tannlaus félög launafólks virðist vera draumur efnahagsráðherrans sem ræður ekki við neitt. Hjá honum sjálfum er flest í kalda koli.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: