- Advertisement -

Vogunarsjóðir eru birtingarform græðginnar

Núna beinist gagnrýni að sjálftökulaunum ríkisbankastjóra.

Ragnar Önundarson skrifar:

Allir þurfa að vita að svonefndir „vogunarsjóðir“ eru eitt þróaðasta birtingarform græðginnar sem til er. Þeir reyna alltaf að „hesthúsa“ skyndigróða og eru svo farnir annað með peningana. Þolinmæði er ekki þeirra eðli. Vogunarsjóðir geta aldrei talist „kjölfestufjárfestar“, sem þrauka með fyrirtæki gegnum súrt og sætt. Að leiða vogunarsjóði til hásætis í fákeppni íslensks bankarekstrar telst til grafalvarlegra mistaka. Núna beinist gagnrýni að sjálftökulaunum ríkisbankastjóra, en við þurfum að muna að bankastjóralaun Arion banka eru ekki greidd af hluthöfunum, vogunarsjóðunum. Þau eru greidd af viðskiptavinum bankans.

Ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi að eiga 34-40% í öllum bönkum og tvo stjórnarmenn af fimm. Menn tala um að bankarekstur sé svo áhættusamur að ríkið eigi að selja allan sinn hlut. Reynslan sýnir þvert á móti að ríkið hleypur undir bagga með almannafé ef áföll verða, alveg óháð eignarhlutum. Ástæðan er sú að í bankarekstri felast ómissandi innviðir, þ.e. greiðslukerfin og tenging þeirra við innistæður. Án þeirra gæti bankahrun breiðst út um allt viðskiptalífið og valdið rekstrarstöðvunum, vöruskorti og allsherjar uppnámi, kaos.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hættum öllum barnaskap, það má ekki setja banka á vald venjulegra fjárfesta einna. Aðild ríkisins og sjóða almennings, lífeyrissjóðanna, þarf að vera nóg til að hindra að braskarar, sem skreyta sig með virðingarheitinu „fjárfestar“ taki sparifé almennings traustataki til eigin nota.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: