- Advertisement -

Hin deigu vopn Páls Magnússonar

Flaggar vafasömu prófkjöri. Fær áskoranir um að fara í formannsframboð. Ríkisstjórn með nokkra ósátta þingmenn.

Stjórnmál Á stuttum stjórnmálaferli er Páll Magnússon enn ósáttur. Hann vill verða ráðherra í ríkisstjórn, en fær ekki. Páll veifar því vopni að hann sé efstur á lista síns flokks í Suðurkjördæmi, og að auki fyrsti þingmaður kjördæmisins. Innst inni veit Páll eflaust að þetta er deigt vopn.

Fyrir kosningarnar haustið 2016 börðust Eyjamennirnir tveir; Páll og Ásmundur Friðriksson harðri baráttu í prófkjöri. Þeir spöruðu hvorki krafta né peninga. Báðir hvöttu sína stuðningsmenn til að setja konurnar tvær, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þá ráðherra, og Unni Brá Konráðsdóttur neðarlega á listann. Það gekk eftir. Þær fengu slæma kostningu, sem varð til þess að Ragnheiður Elín gafst upp, hætti.

Ekkert var til sparað

Aldrei áður höfðu eins margir tekið þátt í prófkjörinu hjá Sjálfstæðisflokki í Suðurkjördæmi og haustið 2016. Sem var skýrt merki um þá miklu smölun og liðssöfnun sem þeir viðhöfðu Eyjamennirnir tveir, Páll og Ásmundur. Niðurstaðan mótaðist af harðri baráttu þeir tveggja og endurspeglaði ákall þeirra beggja um að bregða fæti fyrir Ragnheiði Elínu og Unni Brá.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Niðurstaðan varð mörgum áfall. Ekki Páli. Nema þegar honum var hafnað sem ráðherra á grunni þessa sérstaka prófkjörs.

Þegar efnt var enn til kosninga í október sem leið, brást Sjálfstæðisflokki kjarkur, til að stokka upp og raða á lista. Páll náði því fram að boðinn var fram listi samkvæmt niðurstöðu hins bjagaða prófkjörs frá kosningunum áður. Hann vill, samkvæmt þessu, að áfram verði stuðst við hið afbakaða prófkjör og niðurstöðu harðrar baráttu hans og Ásmundar Friðrikssonar.

Er ógn af Páli?

Bjarni Benediktsson formaður er sýnilega þeirrar skoðunar að prófkjörið dugi Páli ekki til frekari uppgangs innan flokksins. Meira um það hér á eftir.

Páll getur í ójafnvægi sínu ekki flaggað reynslu sinni eða framgöngu þar sem með honum á lista er Unnur Brá Konráðsdóttir, sem hefur orð á sér fyrir dugnað og hefur þar að auki unnið sér inn traust langt út fyrir raðir Sjálfstæðisflokksins.

Páll hefur tvö deig vopn; prófkjörið frá því fyrir þar síðustu kosningar og svo sjálfan sig, reynslu sína, þekkt andlit og rödd. Það dugar Bjarna ekki. Nema rétt sé, sem sumir stuðningsmenn Páls halda fram, að Páll sé ógn við stöðu Bjarna í stóli formanns flokksins.

Hlýði Páll kalli stuðningsmanna sinna og bjóði sig fram til formanns gegn Bjarna á komandi landsfundi, er ekki víst að staða Sjálfstæðisflokksins versni með Pál við stýrið í stað Bjarna.

Þingmenn sem halda sig til hlés

Þar sem ólund er í Páli, sem og tveimur þingmönnum Vinstri grænna, er ekki hægt að segja að 35 þingmenn standi að baki ríkisstjórninni. Jafnvel má segja að ríkisstjórnin geti aðeins treyst á stuðning 32ja þingmanna, minnsta hugsanlega meirihluta.

Mikið munar um hvern þann sem er í fýlu, sem er í andstöðu við forystu síns flokks. Hvort þessi veika staða ríkisstjórnarinnar hjálpi Páli til frekari mannvirðinga innan Sjálfstæðisflokksins kemur í ljós þegar raðað verður í þingnenfndir.

-sme


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: