- Advertisement -

Húsnæði er mannréttindi

„Stjórnvöld viðurkenni að sómasamlegt húsnæði teljist til mannréttinda og móti stefnu samkvæmt því.“

Katrín Jakobsdóttir.

Stjórnmál „Skoða þarf til hlítar hvort rétt er að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs þannig að húsnæðisverð og þróun þess hafi ekki ráðandi áhrif á verðbólgumælingar.“

Þetta segir í greinagerð með þingsályktunartillögu sem Katrín Jakobsdóttir, sem og aðrir þingmenn VG, hafa lagt fram á Alþingi. Tillagan var lögð fram skömmu fyrir stjórnarslitin. Tillagan er um stefnu í efnahags- og félagsmálum.

Þar er meðal annars fjallað um húsnæðismál og húsnæðisstuðning. „Gerð verði úttekt á stöðu og horfum í húsnæðismálum og sérstaklega þætti opinberra stuðningskerfa á þeim vettvangi,“ segir í þeim kafla.

„Metið verði hvernig til hefur tekist með nýskipan í byggingu félagslegs húsnæðis og hugað að því hvernig efla megi þann þátt húsnæðismarkaðarins. Stjórnvöld viðurkenni að sómasamlegt húsnæði teljist til mannréttinda og móti stefnu samkvæmt því. Sérstaklega verði hugað að þætti húsnæðiskostnaðar í vísitölu neysluverðs og hvort rétt sé að taka húsnæðiskostnað út úr þeirri vísitölu.“

Í greinagerðinni segir t.d. „Bregðast verður við því neyðarástandi sem skapast hefur á húsnæðismarkaði þar sem framboð hefur ekki fylgt eftirspurn. Þessa verður mjög vart á höfuðborgarsvæðinu, en ekki síður víða annars staðar á landinu þar sem byggingarkostnaður hefur reynst íþyngjandi miðað við möguleika á lánsfé. Skoða þarf til hlítar hvort rétt er að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs þannig að húsnæðisverð og þróun þess hafi ekki ráðandi áhrif á verðbólgumælingar. Tryggja þarf að alþjóðasamningum þar sem húsnæði er skilgreint sem mannréttindi verði framfylgt og innleidd verði í lög kæruleið til að fylgja því eftir að þessar skuldbindingar séu virtar.“

Þá segir: „Fara þarf heildstætt yfir húsnæðisstuðningskerfi hins opinbera sem eru mörg og ólík og meta hvert eigi að stefna til framtíðar þannig að húsnæðisstuðningur hins opinbera verði efldur og nýtist fyrst og fremst lág- og meðaltekjuhópum.“

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: