- Advertisement -

Katrín mótmælir Gunnari Braga

„Það var rangt með farið hjá Gunnari Braga Sveinssyni á Klausturbarnum að ég hafi ekki gagnrýnt skipan Geirs H. Haarde þar sem ég gerði það á sínum tíma opinberlega eins og auðvelt er að finna með einfaldri leit á netinu.“

Katrín Jakobsdóttir hefur skrifað eftirfarandi: Um fátt hefur verið meira rætt að undanförnu en samtal nokkurra þingmanna á Klausturbarnum þann 20. nóvember síðastliðinn sem afhjúpaði fyrst og fremst óverjandi og niðrandi viðhorf til kvenna, fatlaðra, hinsegin fólks og ýmissa annarra hópa.

Í þessum samræðum sagðist Gunnar Bragi Sveinsson líka hafa átt viðskipti með sendiherrastöður í tengslum við sendiherraskipan Árna Þórs Sigurðssonar og Geirs H. Haarde árið 2014 þegar hann gegndi embætti utanríkisráðherra. Þar dró hann mitt nafn inn í þá umfjöllun. Rétt er að halda því til haga að Gunnar Bragi hefur lýst því yfir í kjölfarið að þarna hafi ekki verið rétt greint frá málsatvikum en þeirri spurningu hefur verið hreyft á opinberum vettvangi hver mín aðkoma og afstaða hafi verið til þessa máls.

Þó að eðli samtalsins á Klausturbarnum hafi verið þannig að ég byggist ekki endilega við að þurfa að svara fyrir nokkuð af því sem þar kom fram er svarið einfalt. Það var rangt með farið hjá Gunnari Braga Sveinssyni á Klausturbarnum að ég hafi ekki gagnrýnt skipan Geirs H. Haarde þar sem ég gerði það á sínum tíma opinberlega eins og auðvelt er að finna með einfaldri leit á netinu. Ég taldi sérstakt að hann hefði verið skipaður sendiherra á vegum íslenskra stjórnvalda sem hann átti þá í málaferlum við. Aðrir þingmenn og fulltrúar Vinstri-grænna tjáðu sig reyndar líka um þessi mál.

Það er líka rangt að ég hafi verið upplýst um skipan Geirs H. Haarde fyrirfram. Gunnar Bragi Sveinsson upplýsti mig hins vegar um skipan Árna Þórs Sigurðssonar sem sendiherra en minntist ekkert á Geir í því samhengi. Gunnar Bragi hafði þá þegar tekið ákvörðun um skipan Árna Þórs en hann var þá þingmaður Vinstri-grænna. Ég kom ekki að þeirri ákvörðun og sóttist ekki eftir þessu starfi fyrir hönd Árna Þórs Sigurðssonar. Ég taldi að ákvörðun þáverandi utanríkisráðherra að upplýsa mig um ákvörðun sína hefði fyrst og fremst verið almenn kurteisi og mér til upplýsingar vegna stöðu Árna Þórs sem starfandi þingmanns í þingflokki Vinstri grænna. Skipan þessara sendiherra var á ábyrgð utanríkisráðherra eins og lög gera ráð fyrir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: