- Advertisement -

Ríkisstjórnin notar fátæka sem skiptimynt

Hér er verklaus íhaldsstjórn, segir Ágúst Ólafur. Þorgerður Katrín segir svo ekki vera, hér sé hins vegar stjórn þriggja Framsóknarflokka

 

Ágúst Ólafur Ágústsson, Logi EInarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir eiga það sameiginlegt að þeim þykir ekki mikið til ríkisstjórnarinnar koma.

„Verkleysi ríkisstjórnarinnar opinberar að hér eru við völd þrír íhaldsflokkar,“ sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar á Alþingi í dag.

„Ég hélt til að byrja með, þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum, að það væri einn íhaldsflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, sem kærði sig ekki um miklar breytingar,“ sagði hann. „Það kemur mér sorglega á óvart að hjá Vinstri grænum, kannski ekki í tilfelli Framsóknarflokksins, virðist það sama uppi á teningnum. Við sáum þetta með fjárlögin hér fyrir jól. Nánast engar breytingar frá fráfarandi ríkisstjórn. Við sjáum þetta í fjármálastefnunni, sem við ræðum í fjárlaganefnd í dag, að það eru nánast engar breytingar milli ríkisstjórna. Maður veltir fyrir sér: Til hvers fóru þessir flokkar, Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn, í þessa ríkisstjórn? Verkleysi og dugleysi endurspeglast í þessum þingsal í því að við fáum engin stjórnarfrumvörp,“ sagði Ágúst Ólafur.

Ríkisstjórn um kyrrstöðu

„Verkleysið er farið að standa þjóðinni fyrir þrifum. Ríkisstjórnin hefur ekki burði til að taka á þeim málum sem mest var talað um fyrir kosningar og sumir af þeim flokkum lofuðu mestu um,“ sagði Logi Einarsson formaður Samfylkingar á þingi í dag.

„Ég er að tala um þá sem bágust hafa kjörin, aldraða, öryrkja og ungt barnafólk. Í stað þess að taka þau mál föstum tökum eru þau notuð sem skiptimynt í kjarasamningum og látið bítast um þau þar. Ég held að það sé rétt sem Ágúst Ólafur Ágústsson sagði; þessi ríkisstjórn er mynduð um kyrrstöðu, líklega um kyrrstöðu í gjaldmiðlamálum, í sjávarútvegsmálum og í landbúnaðarmálum. Þetta er íhaldsstjórn,“ sagði hann.

Ríkisstjórn þriggja Framsóknarflokka

Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, var ekki á sama máli og þeir Ágúst Ólafur og Logi. „Ég vil leyfa mér að mótmæla háttvirtium þingmönumn Loga Má Einarssyni og Ágústi Ólafi Ágústssyni sem ræða hér um íhaldsstjórn. Ég hef litið á þessa ríkisstjórn sem ríkisstjórn þriggja Framsóknarflokka, en auðvitað er umdeilanlegt hvort er verra. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því,“sagði hún.

Og hélt áfram: „En að öllu gamni slepptu er þetta auðvitað prófsteinn á ríkisstjórnina, á framkvæmdarvaldið en ekki síst á hæstvirtan forseta um að breyta hér verkferlum, að orðin sem eru svo falleg í stjórnarsáttmálanum um breytt vinnubrögð á þingi verði ekki bara orðin tóm. Núna er tækifærið, nú þegar við erum ekki bara að kalla eftir málum frá ríkisstjórninni heldur þegar þingið er í því ferli sem það er núna í, með fullt af málum frá þingmönnum sem hægt er að afgreiða. Ég hvet eindregið til þess.“

-sme

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: