- Advertisement -

Sigurður Ingi sendi Sigmundi Davíð sneið

- Framsóknarmenn funda í skugga innanmeins og opinberra átaka.

„Á flokksþingi í haust var tekist á. Svo virðist sem sumir líti á niðurstöðu þess þings sem einhvers konar svik við hluta flokksins. Það er að segja, að meirihlutinn hafi svikið minnihlutann. Og nú sé bara spurningin hvenær þau svik verði leiðrétt,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, í uppafsræðu sinni, á miðstjórnarfundi flokksins, sem nú stendur yfir.

Erfitt er annað en skilja formanninn á annan veg en sendi hér Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forvera sínum sneið. Sigmundur Davíð hefur kosið, síðustu daga, að kalla flokksþingið í haust afbökun lýðræðis.

„Ég skil vel að einhverjir hafi orðið sárir og það taki tíma að heila þau sár. Ég skil að það geta ekki allir verið ánægðir öllum stundum og ég geri ekki kröfu um slíkt,“ sagði formaðurinn. Hann hélt áfram og sagði : „En ég á erfitt með að skilja þá sem gera óánægjuna að sínum helsta vin og félaga. Að mínu viti er það ekki í eðli og anda Framsóknarflokksins að standa þannig að málum.“

Hér er varla talað undir rós.

Ímyndið ekki bara

Sigurður Ingi reynir ekki að breiða yfir ástandið í flokknum. „Það er rétt, okkur vantar meiri og sterkari samstöðu í þingflokknum. Og það er sú krafa sem almennir félagsmenn eiga með réttu á okkur sem valin hafa verið til forystu í flokknum. Ég er tilbúinn að vinna með öllum framsóknarmönnum, að því að auka veg og vanda Framsóknarflokksins og framfylgja stefnu hans.“

Hann sér glötuð tækifæri. „Ég vil nota þetta tækifæri hér í dag og spyrja; ímyndið ykkur hvað við gætum gert núna ef okkur auðnaðist að ganga í takt? En það er einmitt það sem ég tel að flokksmenn séu að kalla eftir, þegar þeir segja að það skorti á samstöðuna. Og verðum við í forystu flokksins, stjórn flokksins og þingmenn, ekki að beygja okkur undir þennan vilja og þessa sjálfsögðu kröfu? Erum við ekki kosin til þess að gera þjóðfélagið betra á forsendum þess sem hugsjónir flokksins grundvallast á; skuldum við ekki flokksmönnum og kjósendum okkar það að starfa saman af heilindum og einurð? Mitt svar er, jú við eigum að gera það.“

Höfum áhyggjur

„Ástandið gæti vafalítið verið betra í flokknum okkar, en í lifandi flokki – sem vill og ætlar að vera stór flokkur- eiga að rúmast margar skoðanir og stundum mismunandi, þótt grunnstefið sameini okkur,“ sagði Sigurður Ingi einnig í setningarræðu sinni.

„Sumir hafa valið að koma fram opinberlega og lýsa þeirri skoðun að órói sé mikill í flokknum. Ég veit að það eru skiptar skoðanir, en stundum hefur maður það á tilfinningunni að verið sé að tala upp ágreininginn. Hvaða tilgangi þjónar það? Við í forystunni höfum eðlilega áhyggjur af þessu en höfum lagt okkur eftir að hlusta og bregðast við eftir atvikum. Við þurfum að finna leiðir til sameiningar en ekki sundrungar. Og allir þurfa að spyrja sig hvernig getur framlag mitt orðið til þess að efla einingu og styrkja flokkinn; hvernig er hægt að leggjast á árar með félögum sínum?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: