- Advertisement -

Skýr skoðanaágreiningur meðal sjórnarsinna varðandi veiðigjöldin

Viðbrögð við ákvörðun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra eru beggja blands. Ekki síst innan ríkisstjórnarinnar.

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, segir ótrúlegt að einhverjir útgerðarmenn láti eins og álagning veiðigjalda fyrir næsta ár komi á óvart. „Allir þeir útgerðarmenn sem ég hef heyrt í gerðu sér fyrir löngu grein fyrir þessu.“

„Þetta eru miklar hækkanir á veiðigjöldum, sérstaklega á helstu tegundir bolfisks. Þorskur hækkar um 107% og ýsa um 127% sem dæmi,“ skrifar Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Í stuttu máli draga svona há veiðigjöld úr samkeppnishæfni greinarinnar á alþjóðamörkuðum, leiða til samþjöppunar í sjávarútvegi, fækka einyrkjum, minnka getu sjávarútvegs til að lækka skuldir sínar og til að fjárfesta í tækninýjungum og nýsköpun. Með öðrum orðum, staða atvinnulífs víðs vegar á landinu mun versna, starfsöryggi fjölda fólks ógnað og byggðafesta minnkar,“ skrifar þingmaðurinn.

Hann minnir á að 1. júní boðaði sjávarútvegsráðherra úttekt á rekstrarstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi, sem á að vera lokið í byrjun september, og í framhaldinu verði tekin ákvörun um hvort staðan kalli á sérstakar ráðstafanir. Í tilkynningu kom fram að styrking krónunnar og verkfall sjómanna síðasta vetur kölluðu á slíka úttekt. Ennfremur að lítil og meðalstór fyrirtæki ættu við viðbótarvanda að etja vegna þess að skuldatengdur afsláttur á veiðigjöldum var ekki framlengdur fram á næsta fiskveiðiár, eins og rétt hefði verið að gera.

„Ekki er að sjá að tekið sé tillit til þessara erfiðu aðstæðna nú við ákvörðun veiðigjalda næsta fiskveiðiárs, staðan mun heldur versna ef eitthvað er,“ að mati Teits Björns Einarssonar.

„Niðurstaðan sýnir aftur á móti hve mikilvægt er að sáttanefnd Þorgerðar um auðlindagjöld skili niðurstöðu þar sem gjaldið verður markaðstengt afkomu og stöðu á hverjum tíma,“ segir Benedikt.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: