- Advertisement -

Svandís segir ekki nei við Sjálfstæðisflokk

Logi Einarsson spurði Svandísu um einkavæðingu og vilja Sjálfstæðisflokks. Ráðherra svaraði ekki afdráttarlaust.

„Getur hún staðfest að hér verði ekki lagt út í meiri einkavæðingu á hennar vakt?“ Þannig hljómaði lykilspurning Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, á Alþingi í gær. Hann vitnaði í nýja ályktun Sjálfstæðisflokksins:

„Mikilvægt er að horfa til fjölbreyttra rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að auka aðgengi, þjónustu, skilvirkni og hagkvæmni með áherslu á skýrar gæðakröfur. Gera þarf heilbrigðisstéttum kleift að stunda sjálfstæðan rekstur.“

Fyrst og fremst opinbera kerfið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði ætla fyrst og fremst að standa að uppbygginu opinbera kerfsins, en segir ekkert um vilja samstarfslokksins um aukinn einkarekstur.

„Sú sem hér stendur gegnir embætti heilbrigðisráðherra og mun gegna því í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna og í samræmi við þau orð sem sú sem hér stendur hefur látið falla varðandi fyrst og fremst uppbyggingu opinbera heilbrigðiskerfisins,“ sagði Svandís.

„Það er það sem ég held á og treysti til framtíðar að sé samstaða um. Það verður áskorun að ná sameiginlegum tóni í þinginu um sameiginlega heilbrigðisstefnu.“

„Ég lít svo á að það sé okkar mikilvægasta verkefni og raunar algerlega í samræmi við þær ábendingar sem við erum að fá núna, til að mynda frá Ríkisendurskoðun, um ómarkviss kaup heilbrigðisþjónustu Sjúkratrygginga sem endurspeglar þá niðurstöðu sem við sitjum núna uppi með eftir þessa tilraun sem ég vil kalla svo, og súpa seyðið af takmarkaðri stefnumörkun í málaflokknum.“

„Fyrst háttvirtur þingmaður nefnir samskipti hef ég lagt upp úr því að hitta fulltrúa allra þingflokka til að ráða ráðum mínum, og þingheims, um framtíðarsýn í heilbrigðismálum. Ég tel að þingið sé mér sammála að mikilvægt sé að tryggja sameiginlega sýn á framtíðarskipan íslenska heilbrigðiskerfisins sem sé fyrst og fremst með jöfnuð að leiðarljósi, óháð efnahag og óháð búsetu. Það er mitt verkefni.“

Vilja, þrek og kjark

Enn kemur ekki ákveðið svar frá Svandísi við spurningunni um hvort lagtverði út í meiri einkavæðingu á hennar vakt. Logi vitnaði í ræðu Svandísar frá fundi um stefnuræðu forsætisráðherra.

„Nú sagði hæstvirtur ráðherra jafnframt í fyrrnefndri stefnuræðu að það þyrfti skýran pólitískan vilja, þrek og kjark. Ég treysti því þá að ráðherra standi í lappirnar og komi hingað upp núna og segi við Sjálfstæðisflokkinn: Leggið þessa landsfundarályktun til hliðar, hún verður í fyrsta lagi tekin á dagskrá þegar ég er stigin úr stóli heilbrigðisráðherra,“ sagði Logi.

Svandís sagði leiðarljós sitt vera samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna. „Það er það sem ég held á og treysti til framtíðar að sé samstaða um. Það verður áskorun að ná sameiginlegum tóni í þinginu um sameiginlega heilbrigðisstefnu.“

Um heilbrigðismál í stjórnarsáttmálanum:

Ríkisstjórnin: „Mótuð verða markmið og leiðir í heilbrigðismálum í samvinnu við fagstéttir og embætti landlæknis í þeim tilgangi að stuðla að góðu heilbrigði þjóðarinnar og skapa eftirsóknarverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk.“

„Íslenska heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu.

Ríkisstjórnin mun fullvinna heilbrigðisstefnu fyrir Ísland með hliðsjón af þörfum allra landsmanna og skilgreina betur hlutverk einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og samspil þeirra. Mótuð verða markmið og leiðir í heilbrigðismálum í samvinnu við fagstéttir og embætti landlæknis í þeim tilgangi að stuðla að góðu heilbrigði þjóðarinnar og skapa eftirsóknarverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Heilsugæslan verður efld sem fyrsti viðkomustaður notenda. Framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna Landspítala munu hefjast næsta sumar.

Efla á nýsköpun í heilbrigðismálum þannig að Ísland verði í fremstu röð og nýti sér nýjustu tækni á þessu sviði, þ.m.t. fjarlækningar.

Ríkisstjórnin ætlar að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og gera það gagnsærra og skilvirkara. Þar þarf að meta árangur núverandi kerfis með hliðsjón af veikasta fólkinu og skoða þá þætti sem eru ekki hluti af því, t.d. ferða- og uppihaldskostnað, tannlækningar og sálfræðiþjónustu.

Geðheilbrigðisáætlun til 2020 verður hrint í framkvæmd og hún fjármögnuð. Geðheilbrigðisþjónusta á heilsugæslustöðvum og sjúkra- húsum úti um land verður efld og bráða- og barna- og unglingageðdeildum Landspítalans verður tryggt fjármagn til að standa undir rekstri þeirra. Heilbrigðisþjónusta í framhaldsskólum verður efld með áherslu á geðheilbrigði.

Ríkisstjórnin mun leggja sérstaka áherslu á forvarnir og lýðheilsu, meðal annars í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu og með stuðningi við íþróttir, æskulýðsstarf og öldrunarstarf. Skoðuð verður beiting efnahagslegra hvata til eflingar lýðheilsu.

Skortur á hjúkrunarrýmum veldur auknu álagi á sjúkrahúsin og skerðir lífsgæði aldraðra. Fyrir liggur að þörf fyrir uppbyggingu er veruleg á næstu fimm árum. Ráðist verður í stórsókn í uppbyggingu og mun hún birtast í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hluti fyrirhugaðs Þjóðarsjóðs gæti nýst í þetta verkefni. Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila en áhersla verður einnig lögð á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu.“

-sme

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: