- Advertisement -

Vaxtastefnan efnahagslegt vandamál

STJÓRNMÁL „Það virðist sem vaxtastefna Seðlabankans sé orðin að sjálfstæðu efnahagslegu vandamáli. Hún er ekki bara vandamál fyrir fólk og fyrirtæki sem pínast hér í ofurvöxtum, heldur er hún, að þessu virtu, líka þáttur í því að grafa undan efnahagslegum stöðugleika,“ svo næltist Þorsteini Sæmundssyni, þingmanni Framsóknar, á Alþingi í dag.

 

Munu hvorki spyrja um stað né stund

Þorsteinn Sæmundsson„Það hlýtur að vera kominn tími til, fyrir menn í Seðlabanka Íslands, að virða fyrir sér afleiðingar þess sem þeir hafa verið að gera nú, þessa fáheyrðu vaxtahækkun sem hér varð síðasta vor í kjölfar kjarasamninga, í hreinni panik og algerum óþarfa, og hefur orðið til þess að 50–60 milljarðar hafa komið inn í íslenskt efnahagslíf frá erlendum aðilum sem keypt hafa ríkisskuldabréf. Þeir munu hvorki spyrja um stund eða stað þegar þeir rífa þá peninga út aftur og geta kippt fótunum undan krónunni,“ sagði þingmaðurinn ennfremur.

 

 Jókst um fimm milljarða

 

Þorsteinn Sæmundsson hóf orð sín á að segja að í Viðskiptablaðinu í dag sé frétt um að eign erlendra aðila í ríkisskuldabréfum jókst um fimm milljarða króna í janúar.

„Þar kemur fram að erlendir aðilar áttu 24% ríkisskuldabréfa í lok janúar. Eign þeirra í ríkisskuldabréfum nam 208,5 milljörðum um síðustu mánaðamót og hafði þá aukist um 46 milljarða á einu ári.“

Minnir ískyggilega á aðdraganda hrunsins

„Þessi þróun minnir ískyggilega á það sem gerðist hér í aðdraganda hrunsins 2008. Af hverju gerist þetta? Jú, þetta er vegna þess að Seðlabanki Íslands býður þessum aðilum til vaxtamunaveislu á fáheyrðum kjörum. Nú, þegar við blasir að það þarf að losa 200 milljarða í krónueignum í næsta mánuði á uppboði, verður maður að viðurkenna að maður skilur ekki alveg hvað mönnum gengur til; nú þegar kominn er upp skafl sem er um það bil þriðjungur af þeim sömu upphæðum og menn eru að reyna að losa, og er þáttur í að losa hér höft.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: