- Advertisement -

Veiðigjöldin eru tilkall þjóðarinnar til arðs af fiskveiðiauðlindinni

Núverandi þingflokksformaður Vinstri grænna, þá í stjórnarandstöðu, barðist hart gegn lækkun veiðigjalda og færði ámóta rök fyrir afstöðu sinni og núverandi stjórnarandstaða gerir. Meira efni úr smiðju VG.

 

„Ég held og vonast til þess að þegar þetta fer inn í nefndina aftur mætist menn og finni skynsamlega leið þar sem ríkissjóður verður ekki af öllum þessum tekjum og gjaldið verður áfram sanngjarnt,“ þannig endaði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, nú þingflokksformaður VG, ítarlega ræðu þegar hún varðist lækkun veiðigjalda sumarið 2013.

Úgerðin fer ekki á hausinn

„Almenningur í landinu kaupir heldur ekki að veiðigjöld séu ósanngjörn skattheimta, að þau séu of há og verði til þess að útgerðir fari á hausinn, að þau íþyngi um of litlum og meðalstórum fyrirtækjum, leggist fyrst og fremst á landsbyggðina, skerði laun sjómanna, mismuni útgerðum eftir því hvaða veiði er stunduð, standi í vegi fyrir nýfjárfestingu og endurnýjun og að þau séu óframkvæmanleg af tæknilegum ástæðum. Tæknilegar ástæður má lagfæra og það er hlutverk okkar á Alþingi, en að afleggja þau að stórum hluta eins og hér á að gera er gerræðisleg ákvörðun,“ sagði Bjarkey Olsen á Alþingi, fyrir fáum árum.

Stórkostlegur arður

„Svo hafa menn verið að greiða sér stórkostlegan arð og kvarta síðan undan því að geta ekki borgað auðlindagjald. Þá er ekki nema eðlilegt að fólk spyrji sig af hverju fyrstu skref þessarar ríkisstjórnar snúa að því að aðstoða þá sem best geta lagt til samfélagsins,“ sagði hún einnig.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir:
„Það er kannski það sem við stöndum frammi fyrir í dag, þ.e. að skýra fyrir þjóðinni hvers vegna í ósköpunum ekki eigi að greiða sanngjarnan skatt eða öllu heldur auðlindagjald.“
Ljósmynd: Hringbraut.

Ekki skattur heldur afnotagjald

„Það er kannski það sem við stöndum frammi fyrir í dag, þ.e. að skýra fyrir þjóðinni hvers vegna í ósköpunum ekki eigi að greiða sanngjarnan skatt eða öllu heldur auðlindagjald, það er eiginlega ekki hægt að tala um þetta sem skatt vegna þess að þetta er bara afnotagjald. Það er ekkert óeðlilegt við að við spyrjum okkur að því. Í rauninni á þetta á við um allar auðlindir, orkuna og hvað það nú er sem við eigum sameiginlega og þurfum að gæta þess að ganga ekki of mikið á. Þetta er til þess að viðhalda þeirri vinnu líka.“

„Ég held að í þessari umræðu eigum við að hafa það að leiðarljósi að lögin um veiðigjöld eru tilkall þjóðarinnar til arðs af fiskveiðiauðlindinni,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir í þingræðu sumarið 2013, þegar þáverandi ríkisstjórn, núverandi samstarfsflokka VG, það er Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, unnu að lækkun veiðigjaldsins, rétt einsog núverandi ríkisstjórn er að gera, en þar eru sömu flokkar og þá, að viðbættum Vinstri grænum, sem þá börðust gegn lækkuninni með öllum tiltækum ráðum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: