- Advertisement -

10 ár: Davíð var skúrkur ársins 2008

Seint á árinu 2008 spurði Mannlíf  nokkra einstaklinga um hver væri skúrkur þess árs, að þeirra mati. Greinin fer hér á eftir:

Davíð Oddsson hefur oft verið öruggur sigurvegari. Hann er það þegar fólk er beðið að velja skúrk ársins. Útrásarvíkingarnir Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason koma næstir, en nokkuð langt frá Davíð.

Hér eru  ummæli: „Daaaaaaaaaaaaaaavíð!“ „Af mörgum er að taka, en Davíð Oddsson er svo „óheppinn“ að fá þann titil hjá mér. Það er alltaf best að hætta á toppnum.“ „Davíð Oddsson. Þarfnast ekki skýringa.“ „Hlýtur að vera Davíð Oddsson sem er í einhverri ótrúlegri persónulegri herferð á Svörtuloftum. Hann framkvæmir það heimskulega hluti að hlegið er að honum, og þar af leiðandi okkur öllum, um allan heim.“ „Í augum þjóðarinnar er Davíð Oddsson skúrkur þjóðarinnar; hvort sem hann á það skilið eða ekki.“ „Davíð Oddsson, sem virðist hafa tapað sér. Maðurinn er algjörlega óalandi og óferjandi og það virðist engan enda ætla að taka. Nú eru hótanir hans orðnar enn fyrirferðarmeiri en áður. Vill ekki einhver stoppa manninn, plís.“

Jón Ásgeir og Hannes Smárason

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og hinir sem voru tilnefndir fengu líka ummæli: „Jón Ásgeir Jóhannesson, sem safnaði þúsund milljarða skuldum og reynir að flytja þær á herðar Íslendinga, um leið og hann hyggst sigla burt á snekkjunni.“ „Hannes Smárason fyrir að klúðra öllu sem hann kom nærri.“ „Hannes Smárason – þarfnast ekki frekari útskýringar.“ „Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrir að halda stjórnarsamstarfinu áfram – hvað sem á dynur.“ „Krónan. Þjóðin sýpur seyðið af sjálfstæðum gjaldmiðli – gjaldmiðli sem einhverjir stjórnmálamenn töldu nauðsynlegan svo hægt væri að stjórna betur efnahag landsins.“

Burgeisar og mafíósar

Og að lokum er skemmtilegt að lesa um þá sem ekki eru nafngreindir. „Hér er ekki hægt að taka einn út því margir hafa slegist um þessa vegtyllu. Það er mjög erfitt að gera upp á milli bankastjóranna, útrásarvíkinganna, Fjármálaeftirlitsins, spilltra  stjórnmálamanna og síðast en ekki síst Bakkabræðra í leðurklæddu stólunum í Seðlabankanum.“ „Þeir eru nú nokkrir get ég sagt þér!“ „Burgeisar og mafíósar þessa lands sem sofna samviskulausir á kvöldin vitandi það að þeir hafa brotið viljandi og sífellt allar reglur fjármálakerfis Íslands og víðar, og skilja eftir sig sviðna jörð í ofanálag.“ „Útrásarvíkingarnir allir með tölu.“ „Útrásarvíkingarnir – skelfilegar afleiðingar talnaleiks nokkurra einstaklinga sem gjörsamlega eru snauðir af ábyrgðartilfinningu og siðferðiskennd.“ „Of margir til að telja upp.“ „Það á eftir að kom í ljós.“

Skúrkur ársins:

Davíð Oddsson

Næstir:

Hannes Smárason

Jón Ásgeir Jóhannesson

Aðrir:

Burgeisar og mafíósar Íslands

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Krónan

Pálmi Haraldsson

Útrásarvíkingarnir

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: