- Advertisement -

Breiðavík, helvíti á jörð

- upprifjun frá upphafi uppljóstrana ofbeldis og mannfyrirlitningar á oðinberum upptöku „heimilum“

Þegar lokaskýrslan um sanngirnisbætur hefur verið gerð streyma minningarnar. Ég er stoltur af að hafa ýtt málinu af stað. Ég var nýtekin við ritstjórn DV og okkur vantaði stórt mál til að fjalla um. Lengi hafði ég átt mér þann draum að fjalla um Breiðavík. Ástæðurnar voru meðal annars þær að ég þekkti stráka sem voru sendir þangað og það átti að senda líka að senda mig vestur. Mömmu tókst að koma í veg fyrir það.

Þegar ég nefndi við ritstjórnina að við ættum að skrifa um Breiðavíkurbörnin fylltust allir áhuga. Þó ég hefði hugsað um þetta af og til í mörg ár varð málið stærra og meira en mig grunaði áður en lagt var af stað.

Fljótlega skoðuðum við fleiri „heimili“. Svo sem Kumbaravog, Bjarg og Silungapoll. Allar frásagnir fólksins sem var haft á þessum stöðum voru átakanlegar. Stundum var grátið á ritstjórninni. Þangað kom fólk sem endurlifði í huganum nauð æskunnar. Við sem unnum að fréttaskrifunum og viðtölunum vorum undir miklu álagi. Vöknuðum jafnvel upp um nætur hugsandi um allan þann hrylling sem við kynntumst í gegnum viðmælendur okkar og af lestri gagna.

Skaðinn sem margt fólk varð fyrir í æsku verður aldrei bættur með peningum. Þeir lina eflaust afleiðingar þess sem gerðist, en bæta ekki.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Blaðamannafélag Íslands verðlaunaði umfjöllun okkar á DV, sem og Kastljósið, sem  rannsóknarblaðamennsku ársins 2007.

„RANNSÓKNARBLAÐAMENNSKA ÁRSINS 2007:

Tvær af tilnefningunum í þessum flokki deila með sér verðlaununum í ár. Annars vegar ritstjórn DV, Sigurjón M. Egilsson, Valur Grettisson, Anna Kristine Magnúsdóttir, Sigtryggur Ari Jóhannsson, Hjördís Rut Sigurjónsdóttir, Valgeir Örn Ragnarsson,  Jakobína Davíðsdóttir og Kristján Hrafn Guðmundsson, fyrir umfjöllun sína um meðferð barna og unglinga í Breiðavík og á öðrum vistheimilum ríkisins. Hins vegar Þóra Tómasdóttir og Sigmar Guðmundsson, Sjónvarpinu, fyrir umfjöllun sína í Kastljósi um meðferð og örlög drengja sem vistaðir voru á uppeldisheimilinu í Breiðavík.

RANNSÓKNARBLAÐAMENNSKA ÁRSINS 2007

 Breiðavíkurmálið og málefni fleiri vistheimila á vegum hins opinbera  voru fyrirferðamikil í þjóðfélagsumræðunni á síðasta ári. Í umfjöllun um þessi mál var rifið ofan af gömlum sárum sem ekki höfðu náð að gróa með eðlilegum hætti í þögn undanfarinna áratuga. Þetta voru vandasöm mál þar sem mörgum steinum var velt við. Framganga fulltrúa kerfisins var leidd fram í dagsljósið og leitast var við að draga fram viðhorf og reynslu einstaklinganna sem í hlut áttu. Umræðan varð til þess að sett var á laggirnar sérstök nefnd á vegum stjórnvalda til þess að fara ofan í málið. Tveir miðlar tóku forustuna í þessari umfjöllun, DV og Kastljós. DV hóf umfjöllunina um málið og fylgdi því rækilega eftir. Fjallaði blaðið m.a. um ofbeldið sem börnin máttu búa við og ástæður og afleiðingar þess að þau voru vistuð á stofnunum. Sama er að segja um rannsókn og umfjöllun Kastljóss sem fjallaði um málið á margvíslegan hátt, m.a. með áhrifaríkum, erfiðum en nauðsynlegum viðtölum við Breiðavíkurdrengina sjálfa. Þessir ólíku fjölmiðlar fjölluðu á sannfærandi hátt um málið, ljósvakinn annars vegar og prentmiðillinn hins vegar. Að baki lá mikil heimildavinna sem svipti hulinni af viðkvæmu leyndarmáli.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: