- Advertisement -

Af tilefni 1. maí: Átök á eyrinni

Gvendur jaki. Þeir hótuðu að henda honum í Tjörnina.

Fyrir margt löngu vann ég á eyrinni, mest hjá Eimskip. Eitt árið varð mikil deila milli stjórnenda félagsins og eyrarkallanna. Þeir fyrrnefndu vildu færa til síðdegiskaffitímann, en karlarnir ekki.

Átök vegna þess voru mikil. Margir fundir og Gvendur jaki var tíður gestur hjá okkur. Fundað var í Iðnó. Þar þótti sumum Gvendur jaki ekki nógu harður í afstöðu sinni. Einn þeirra stóð upp og kallaði: „Ef þú þegir ekki Gvendur, þá hendum við þér í Tjörnina.“

Margir eftirminnilegir menn störfuðu á Eyrinni. Einn þeirra hét Sigurður Sveinsson. Hann var kominn yfir sjötugt þegar þetta var. Mikill sómamaður sem öllum féll vel við, háum sem lágum. Almennt unnu menn ekki svo lengi á eyrinni, en sökum mannkosta sinna fékk  Sigurður að vinna áfram. Var þá í Austurskála og sá um stroffurnar. Sorteraði þær og lagaði.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Jæja, fundur var haldinn í Lindabæ. Þar sem Óttarr Möller forstjóri mætti. Hann hélt ræðu og að henni lokinni stóð Sigurður upp og andmælti forstjóranum, einn manna. Óttarr brást við með því að mæra Sigurð og sagðist undrandi á að annar eins kostamaður og Sigurður talaði á þann veg sem hann gerði.

Þá stóð Sigurður upp og sagði nokkuð sem ég gleymi aldrei: „Hvorki ég né þú, Óttarr, erum betri eða verri en nokkur annar hér inni.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: