- Advertisement -

100 milljarða tap vegna skattsvika

Mögulegt er orðið að finna skattsvikarana með rafrænum hætti.

Ragnar Önundarson skrifar:

Vitað er að ríkissjóður missir árlega af um 100 milljörðum króna vegna skattsvika. Þeir sem svíkja undan skatti eru að svíkja samborgara sína, því þeir njóta alls sem ríkið tryggir okkur á kostnað annarra. Ekki er heldur greitt í lífeyrissjóð af „svörtum“ tekjum, sem þýðir að skattsvikarar svíkja líka á efri árum, fá sína framfærslu á kostnað annarra.

Hvernig getum við tekið á skattsvikum ? Árum og áratugum saman hafa stjórnvöld verið úrræðalítil. Afleiðingin er uppgjöf og aðgerðaleysi. Mögulegt er orðið að finna skattsvikarana með rafrænum hætti.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hugmynd mín er þessi:

Rafræn framtöl gefa nýja möguleika. Ekki bara tekjur heldur líka eignir og skuldir koma nú rafrænt inn í þau. Ef mismunur eigna og skulda, þ.e. hrein eign, vex umfram það sem getur skýrst af framtöldum tekjum að teknu tilliti til eðlilegs framfærslukostnaðar, þá eru óskýrðar og óskattlagðar tekjur að baki. Gera þarf ýmsar lagfæringar til að gera þennan mismun skattleggjanlegan. Vinna þarf í því, en látum það liggja milli hluta í bili.

Lagt er til að áfram verði reiknaður tekjuskattur- og útsvar með óbreyttum hætti, en bætt verði við nýju gjaldi, „velferðargjaldi“, sem reiknað verði út fyrir alla framteljendur en einungis lagt á fólk að því marki sem gjaldið er hærra en tekjuskattur og útsvar. Stofn til útreiknings velferðargjalds verði aukning hreinnar eignar, að viðbættum framfærslukostnaði framteljanda og heimilisfólks hans. Þetta er þá nálgun að raunverulegum tekjum manna. Gera á framteljendum refsilaust að stíga fram og gera skattyfirvöldum grein fyrir tekjum sínum. Birta á lista árlega yfir þá sem ekki stíga fram. Það yrði vafasamur heiður að vera á þeim lista.

Sem fyrr sagði þarf að gera ýmsar lagfæringar til að gera þetta framkvæmanlegt, en óþarft er að láta það koma í veg fyrir að unnið sé að lausn skattsvikavandans.


Booking.com

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: