„Þetta er einfaldlega hræðileg staða. Hvert og eitt barn sem verður fyrir slíku ofbeldi glímir við afleiðingarnar út ævina og það er okkar skylda að tala meira um þetta og efla fræðslu.“
Halla Hrund Logadóttir.

„Mig langar í dag að ræða um ofbeldi gegn börnum hérna í þinginu en Barnaheill hefur undanfarna daga staðið að átakinu Ég lofa þar sem er sérstaklega verið að lyfta upp umræðu um kynferðisofbeldi gegn börnum, hvort sem um er að ræða ofbeldi af hálfu jafnaldra eða fullorðinna. Ég leyfi mér að fara yfir nokkrar staðreyndir sem samtökin hafa tekið saman og eru m.a. úr íslensku æskulýðsrannsókninni frá 2024, því að þessar staðreyndir eru sláandi,“ sagði Halla Hrund Logadóttir Framsóknarflokkií Alþingi.
„Árið 2024 sögðu um 700 börn í 8.–10. bekk að annar unglingur hefði haft við þau samfarir eða munnmök gegn vilja þeirra, 700 börn. Um 250 börn í 8.–10. bekk sögðu einnig að einhver fullorðinn hefði haft samfarir eða munnmök við þau gegn vilja þeirra, 250 börn. Innan við helmingur þeirra barna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og eru núna að klára grunnskóla hafa sagt einhverjum frá ofbeldinu. Innan við helmingur segir frá. Yfir 50% stelpna í 10. bekk hafa verið beðnar um að senda af sér nektarmyndir og yfir 50% fengið óumbeðið klámfengið efni sent til sín — yfir helmingur stelpna. Mörg mál eru tilkynnt til lögreglu en þó langt í frá stór hluti þeirra, um tvö á viku eða 126 á árinu 2024. Samkvæmt skýrslu Stígamóta frá 2023 má sjá að af öllum þeim sem leituðu til Stígamóta það ár voru 52,1% á barnsaldri þegar ofbeldi átt sér stað og 27,4% undir tíu ára,“ sagði Halla Hrund.
Og að lokum sagði hún: „Þetta er einfaldlega hræðileg staða. Hvert og eitt barn sem verður fyrir slíku ofbeldi glímir við afleiðingarnar út ævina og það er okkar skylda að tala meira um þetta og efla fræðslu. Mig langar til að skora á okkur öll hér í dag og sömuleiðis ráðherra málaflokksins að standa upp og setja þetta mál á oddinn.“