- Advertisement -

Ég elskaði að vinna á Nóaborg

Sólveig Anna skrifar:

Ég vann lengi á leikskólanum Nóaborg, frá árinu 2008 og þangað til að ég tók við sem formaður Eflingar.
Að vinna á Nóaborg breytti mér mjög mikið. Ég kynntist því af fullri alvöru hvernig það er að vinna erfiða vinnu undir oft á tíðum mjög miklu álagi. Ég kynntist því hvernig það er þegar niðurskurðurinn hefst af því að bankamenn og auðstéttin hafa orsakað efnahagslegt hrun, ég kynntist því hvernig það er að vinna inn í fjársveltu velferðarkerfi. Ég kynntist því hvernig það er að fá útborguð laun sem að eru svo lág að einhverjar hugmyndir um fjárhagslegt sjálfstæði kvenna verða eins og brandari úr munni mesta fávita sem að þú hefur nokkru sinni hitt. Ég lærði allt um það hvað það er ótrúlegt að starfsemi leikskólanna, sem að eru eitt það mikilvægasta í samfélaginu okkar, sá staður sem að öll treysta á, sú stofnun sem að talað er um sem lykilatriði þegar kemur að frelsi kvenna á Íslandi til að stjórna eigin lífi grundvallist á ofur-arðráni á konum. Ég upplifði hvað mér fannst merkilegt að sjá þessa risavöxnu þversögn með algjörlega skýrum hætti. Og ég kynnist því að ég þoldi ekki þetta sjúka óréttlæti.

Ég elskaði að vinna á Nóaborg. Ég elskaði að vera með börnunum þó að ég væri stundum svo þreytt þegar ég kom heim að ég gæti eiginlega ekki talað. Mér fannst dásamlegt að vera með söngstund, vera í listakrók, vera með æsingslega dans og hreyfistund. Að lesa fyrir þau. Mér fannst merkilegt og mikill heiður að fá að vera stuðningsfulltrúi. Mér fannst ótrúlegt að kynnast börnum alls staðar að úr heiminum. Ég elskaði að fá að vera úti undir berum himni, ég vissi ekki hvað ég elskaði það mikið fyrr en ég fór að vinna inni. En það sem að mér fannst merkilegast var að fá að kynnast öllum konunum sem að ég vann með. Þær komu líka að alls staðar að úr heiminum, frá Íslandi, Póllandi, Úkraínu, Spáni, Kúbu. Við unnum saman, við konunnar sem að fæddumst hér á Íslandi, og þær sem að hingað höfðu komið langa leið, hlið við hlið, í vinsemd og systra-lagi. Við unnum við að láta allt ganga upp; passa, lesa, syngja, mála, hlaupa, svæfa, skipta á, gefa að borða, fara í útikennslu, fara í vettvangsferðir, búa til jólagjafir og útskrifa börnin sem að voru á leið í skóla. Við lærðum endalaust hvor um aðra. Við fengum lánað íbúfen, dömubindi, tyggjó hvor hjá annari. Við hlupum stundum hratt og hraðar. Við vorum stundum þreytt og þreyttari. Og við vorum oft glöð og glaðari, saman á kaffistofunni eða saman úti í sólinni, á fullkomnum degi, í skjólinu í garðinum á Nóaborg.

Ég veit að samstarfskonur mínar sögðu Já við því að fara í verkfall.

Ég veit að samstarfskonur mínar sögðu Já við því að fara í verkfall. Eins og Niuvis sagði: „Okkar tími er núna“. Og hver ætlar að neita okkur um þessa upprisu? Hver ætlar að neita því að ekki verði lengur við óbreytt ástand unað? Hver ætlar að neita því að það sé siðferðilegt hneyksli að á vinnustaðnum Reykjavíkurborg fái maðurinn á toppnum meira en 2 milljónir á mánuði á meðan konurnar sem að starfa með börnunum þurfa aðstoð frá vinum og ættingjum til að láta enda ná saman frá einum mánaðamótum til þeirra næstu? Hver ætlar að opinbera sig sem óvin láglaunakvenna borgarinnar sem að fórna oft heilsu sinni í þjónustunni við kerfið og hafa ekki uppskorið neitt nema fjárhagsáhyggjur?

Það er eitthvað mjög ógeðslegt við að reka dagvistunnarkerfi barna á ofur-arðráni á konum. Það er eiginlega það ógeðslegasta sem að ég veit. Í því er fólgin fyrirlitning gagnvart bæði börnum og konum. Ég neita því að þessi fyrirlitning fái áfram að ráða för. Ég krefst þess að konurnar á Nóaborg og allar hinar konurnar fái alla þá virðingu og vinsemd sem að þær eiga skilið.

Baráttan um borgin er ekki síst barátta kvenna fyrir réttlæti. Hún er kvennabarátta. Af þeim ríflega 1800 félagsmönnum Eflingar sem að starfa hjá borginni er lang stærstur meirihluti konur. Lægst launuðustu manneskjurnar á íslenskum vinnumarkaði. Borgarstjóri getur reynt að halda því fram að best sé fyrir þessar konur að halda áfram að fá eiginlega ekkert útborgað, þannig sé hag þeirra best borgið, eins og hann gerði í gær. En við hljótum að hafna svo furðulegri afstöðu, um leið og við sjáum stéttahrokann sem að í henni er fólginn. Við hljótum að krefjast réttlætis fyrir láglaunakonuna. Því að ef við gerum að ekki hvernig ætlum við þá eiginlega að geta horft í spegilinn?

Ég segi Já við verkfalli í borginni. Ég gat aldrei skilið af hverju Efling og forystan þar hafði engan áhuga á mér og samstarfskonum mínum. En það skiptir engu máli, tímarnir eru breyttir; við erum hér, við erum á leið í verkfall og borgin er í okkar konu-höndum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: